153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[17:42]
Horfa

Guðrún Hafsteinsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég spurði hv. þm. Gísla Rafn Ólafsson hvort kerfið okkar væri ekki að springa, komið að þolmörkum. Það er þannig að öll ríki eru með kerfi í þessum málaflokki. Kerfi er ekkert annað en rammi, það má segja að það sé stakkur sem við sníðum utan um okkur. Þá spyr ég hv. þingmann að því hvort við séum ekkert að olnboga okkur núna út úr þessu kerfi sem við höfum skapað okkur hingað til?

Jú, það er rétt sem hv. þingmaður segir að það er algjört met í fjölda fólks sem hingað hefur komið. En ef við tökum fjölda Úkraínumanna sem hingað hafa komið út fyrir sviga þá er samt sem áður metár í umsóknum um vernd á Íslandi.