153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[18:08]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég verð að taka undir að einhverju leyti, þó að það hafi kannski ekki komið mér endilega á óvart. Það kom mér kannski að einhverju leyti öfugt á óvart, t.d. í Danmörku, hversu gríðarlega blygðunarlaust stjórnmálamenn tala um þennan hóp fólks sem er að leita sér að vernd. En á móti þá deildi fólk sem starfaði innan kerfisins ekkert endilega þeim sjónarmiðum. Það var að vinna inni í kerfi sem því sjálfu fannst óþægilegt og þar erum við að tala um einstaklinga sem eru í beinum samskiptum við flóttafólk og ættu kannski að þekkja betur þær aðstæður sem fólk er að koma úr og einstök mál.

Að þessu leytinu til er það auðvitað mjög hryggilegt að heyra hvernig ráðamenn eru farnir að tala hér á landi. Ég vona að það endi ekki með því að fólk sem starfar með flóttafólki hérlendis lendi í sömu aðstæðum og starfsfólk útlendingastjórnvalda í Danmörku.