153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[18:11]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir býsna góða yfirferð. Ég ætla að vera aðeins á svipuðum slóðum og hv. þm. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir og vísa í það sem við urðum vitni að í ferðum allsherjar- og menntamálanefndar í Danmörku og Noregi. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann muni eftir því hvernig því var svarað í þessum ríkjum þegar spurt var hvort stjórnvöld hendi fólki úr allri þjónustu við endanlega ákvörðun, hvort hann muni eftir því að slíkt þekkist þarna eins og verið er að leggja til hér, við endanlega niðurstöðu mála, að eftir ákveðinn tíma þá bara sé fólk komið út á guð og gaddinn og fái hvorki heilbrigðisþjónustu né húsaskjól eða matarbita.