153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[18:14]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir. Já, hvað verður um þetta fólk? Af hverju erum við að búa þannig um hnútana að við þurfum að spyrja þessarar spurningar hér í þingsal? Fólk sem búið er að tæma allar leiðir hér, þarf að framfleyta sér áfram, á jafnvel enga sök á því að það kemst ekki áfram, það eru einhverjar tafir sem hér búa til einhvern vanda fyrir það — af hverju þurfum við að spyrja þessarar spurningar sem hv. þingmaður nefndi hérna? Hvað verður um þetta fólk? Við eigum auðvitað að hafa kerfið okkar þannig að við eigum að geta svarað þessari spurningu. Þetta fólk á auðvitað að vera partur af einhverri framfærslu hér, og einhverri félagslegri aðstoð ef það ber sjálft enga sök á því að það er ekki hægt að vísa því úr landi. Það held ég að liggi alveg í hlutarins eðli. En auðvitað eru í lagagreininni sem um ræðir í frumvarpinu ákveðnar undanþágur, taldir upp hópar og annað, en hér eins og í öllu öðru þegar kemur að þessum málum þá er þetta auðvitað ekki bara spurning um laganna hljóðan heldur líka spurning um framkvæmdina sjálfa og ég held að við þurfum að horfa svolítið sérstaklega til þess.