153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[18:16]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég verð að viðurkenna að fyrri hluti ræðunnar var mér mikil vonbrigði. Mér fannst fyrri hlutinn lýsa þessari aðferð fólks til að flokka í góða og vonda fólkið. Ég ætla að fá að segja það líka, því að ég komst ekki í andsvar áðan, að ræða hjá hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni var líka í þeim flokki og þegar fólk talar um hér að einhver kunni að misnota kerfið, að allir séu að misnota það — það er enginn að segja að einhver sé að misnota flóttamenn eða umsækjendur um alþjóðlega vernd, að þá sé verið að misnota alla. Það er alls ekki verið að segja það. En við verðum að mega tala um þessa hluti sem m.a. ríkislögreglustjóri bendir okkur á í skýrslunni.

En mig langar að spyrja hv. þingmann, vegna þess að ef ég tók rétt eftir þá sagði hann eitthvað á þá leið að hann vildi veita öllum vernd þrátt fyrir að þeir hefðu fengið vernd í öðru landi, væru þeir með vernd í landi eins og Grikklandi og Ítalíu. Tók ég rétt eftir hjá hv. þingmanni? Er það stefna Viðreisnar að taka hér á móti, í gegnum verndarkerfið okkar, öllum þeim sem fengið hafa vernd í þessum löndum?