153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[18:19]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er orðið ansi margt sem ég þarf að svara hér á stuttum tíma. En nú er það þannig að ég er þeirrar skoðunar að við hljótum að líta þannig á að 42. gr. eigi við þegar kemur að því að senda fólk ekki í ómannúðlegar aðstæður og annað. Það á við um Grikkland, Ítalíu og Ungverjaland. Það er það sem ég er að segja. Hafi hv. þingmaður skilið það einhvern veginn öðruvísi þá er það annaðhvort misskilningur eða þá að ég hef hreinlega ekki verið nægjanlega skýr.

Svo er það auðvitað þannig að við verðum öll að vanda okkur svolítið mikið þegar við erum að tala um þessa hluti. Það sem ég hef verið að gagnrýna alveg sérstaklega er að þegar lögreglan t.d. kemur fram og talar um þetta þá fylgja því gjarnan ekki neinar tölur, það bara kemur svona, líka hjá hæstv. ráðherra: Lögregla er að rannsaka. Það er verið að rannsaka þetta, Europol, það er verið að skoða þetta hér og þar. Breytum ekki á meðan verið er að skoða og rannsaka, sjáum hvað kemur út úr rannsókninni, skoðuninni og úttekt lögreglu, (Forseti hringir.) fáum einhverja tölfræði og eitthvað til að byggja á áður en við förum í breytingarnar. (Forseti hringir.) Það er kannski svolítið það sem ég var að reyna að segja.