153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[18:51]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það verður að halda því til haga að þegar þessari umræðu lýkur, hvort sem það er síðar í kvöld eða á morgun eða í nótt, þá er málið á forræði þingsins og dómsmálaráðherra hefur í sjálfu sér enga aðkomu að því lengur. Þar taka menn til málefnalegrar umræðu og þinglegrar meðferðar á vettvangi nefnda og síðan hér í þingsal við 2. umr. En það er ekki hægt annað en að ítreka þau skilaboð sem ég færði hér í kvöld og er kannski skýringin á því af hverju það eru ekki fleiri stjórnarþingmenn sem taka þátt í þessu. Það er bara almenn og mjög góð sátt, það náðist samkomulag um þessa útfærslu á útlendingalögum og það er tekið tillit til margra sjónarmiða. Málið er eilítið breytt frá því í vor en megintilgangur þess nær að ganga eftir. Þau atriði sem hér er verið að kalla eftir hæstv. félagsmálaráðherra í sambandi við eru auðvitað bara mjög óeðlileg. Þetta er ívilnandi ákvæði varðandi atvinnuréttindi þeirra sem hafa fengið hér dvöl og við höfum rætt um það atriði og náð saman um það og ég get svarað fyrir það alveg eins og fólk vill, ef það ber fram einhverjar sérstakar spurningar í þeim efnum.