153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[18:52]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hæstv. dómsmálaráðherra kemur hér ítrekað upp í pontu og útskýrir föðurlega fyrir okkur hvernig pólitíkin virkar, reyndar talaði hann um þingsköp en ég held að það sé nú verið að tala um pólitíkina, þar sem samið hafi verið um þetta mál. Mig langar að byrja á að spyrja: Er það í alvörunni þannig að ríkisstjórnarflokkarnir líti svo á að þeir geti bara samið um mál, samið um það að vera í algjöru skjóli fyrir umræðu um mál sem þeir hafa samþykkt að koma með hér inn í þingsal? Hv. þm. Jódís Skúladóttir talaði um það að Vinstri græn hafi viljað fá þetta mál inn í þingsal til að ræða það. Hvar eruð þið? Ræðum það. Það er einn þingmaður hér og svo hv. þm. Orri Páll Jóhannsson. Það hafa ekki verið miklar umræður og við fáum ekki einu sinni hæstv. ráðherra sem er inni í þessu frumvarpi til að koma og ræða þetta með okkur. Það sem mig langar gjarnan til að vita varðandi þessa samninga sem gerðir hafa verið, og gera það að verkum að Vinstri græn telja bara hið besta mál að koma þessu máli til umræðu hér í þingsal sem stjórnarandstaðan getur rifist og skammast eins lengi og henni hentar, (Forseti hringir.) er fyrir hvað þingmenn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs seldu sál sína í þessu máli. (Forseti hringir.) Hvað er það sem þeir fengu sem er þess virði að taka af flóttafólki réttinn til fjölskyldusameiningar við maka sinn, (Forseti hringir.) svipta það þjónustu og henda því út á götu og undir brú? Hvað fengu þeir í staðinn?

(Forseti (LínS): Forseti áréttar að ræðutími undir liðnum fundarstjórn forseta er ein mínúta.)