153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[18:58]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Mig langar bara til að biðja hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins og ráðherra vinsamlegast um að hætta að koma hér upp og gera okkur í stjórnarandstöðunni upp annarlegar hvatir. Þetta er ekki málefnalegt. Við erum hérna uppi og erum síendurtekið búin að færa rök fyrir okkar máli. Við erum að beita þeim verkfærum, þeim fáu verkfærum sem við höfum sem stjórnarandstaða, til að biðja vinsamlegast hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra um koma hér upp og gera grein fyrir skoðunum sínum á þessu frumvarpi. Það er það sem við erum að biðja um. Við erum einnig að benda á að hér eru tveir stjórnarflokkar, Framsókn og Vinstri græn, sem eru bara ekki að taka eins virkan þátt í umræðunni og þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Þetta er umdeilt frumvarp. Þetta er risastórt mál. Þetta er umdeilt frumvarp og við sjáum það í fjölmiðlum, í umræðu sem er þvers og kruss, (Forseti hringir.) hversu ánægðir þingmenn eru með þetta mál. (Forseti hringir.) Við viljum heyra þær raddir hér í andsvörum. Ég veit að það eru einhverjir með ræður, (Forseti hringir.) en í andsvörum í umræðunni til að fá fram mismunandi sjónarhorn og skoðanir á þessu máli.