153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[19:00]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þetta lendir ekki inni í nefnd sem ég sit í og þess vegna ætla ég að nota tækifærið og árétta það sem mér finnst skipta höfuðmáli í þessu, að við höldum reisn okkar sem sú gestrisna þjóð sem við höfum verið í gegnum tíðina, samfélagslega þenkjandi. Við skulum vera örlát, við skulum láta mennskuna vera í fyrirrúmi, við skulum fagna fjölmenningunni og fjölbreytileikanum sem hér blasir við okkur og öllu því góða fólki sem okkur vantar til starfa í mörgum ólíkum geirum. Nýtum það góða fólk til að gera það auðvelt fyrir það að koma hingað og fá leyfi til að starfa og gerum ferla sem skilvirkasta, einfaldasta. En það er auðvitað alveg ljóst að við getum ekki tekið á móti öllum þeim úr ólíkum heimshornum sem hingað vildu gjarnan fá að koma í draumaríkið Ísland. En mennska og reisn í fyrirrúmi.