153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[19:20]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir og langaði kannski að nefna þessa þjónustusviptingu í framhaldi af því sem hv. þingmaður talar um. Auðvitað er það þannig að það eru alls konar undanþágur í ákvæðinu gagnvart hinum ýmsu hópum. Ég hef sjálfur verið að benda á hér í dag að mér finnst ekki algerlega skýrt að undanþágan nái til þeirra sem fastir eru á landinu, ekki vegna þess að þeir vilji ekki fara eða aðstoða ekki við það heldur vegna þess að móttökuríkið vill ekki taka við þeim, engir samningar eru við það eða slíkar aðstæður. Telur hv. þingmaður að þessar undanþágur sem eru frá þjónustusviptingunni og taldar eru upp girði algerlega fyrir að einhverjir hópar falli milli skips og bryggju, t.d. þessi hópur sem er sendur brott af öðrum ástæðum en þeim að hann kemst ekki á brott og hefur ekki barist gegn því?