153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[19:22]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður er mjög glöggur og reyndur úr blaðaheiminum og hefur oft mjög gott auga til að tengja saman umræðu frá mörgum stöðum. Eitt sem hefur komið fram í umræðunni fyrir framlagningu þessa frumvarps er frá hæstv. ráðherra þar sem hann segir, með leyfi forseta:

„Við verðum að bregðast við þessu með einhverjum hætti, við getum ekki látið þetta vera stjórnlaust eins og það er í dag.“

Ég klóra mér aðeins í hausnum yfir þessu eins og hv. þingmaður var að ýja að í ræðu sinni. Ég get ekki með nokkru móti séð það í þessu frumvarpi hvernig það tekur á einhverju stjórnleysi eða að það sé vel útskýrt hvað þetta stjórnleysi er eiginlega sem hæstv. ráðherra er að tala um og var svona að velta fyrir mér hvort við getum kannski aðeins klórað okkur í hausnum um það hvað þetta í rauninni þýðir í samhengi þessa frumvarps. Hvar er stjórnleysi samkvæmt þessu frumvarpi? Hvernig leysir þetta frumvarp þetta svokallaða stjórnleysi?