153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[19:24]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Það er einmitt umræðan sem ég átta mig ekki alveg á þarna hjá hæstv. ráðherra, þarna talar ráðherra um stjórnleysi. Það er dálítið stórt orð komandi frá ráðherra, sérstaklega þegar það er ekki útskýrt nánar í hverju þetta stjórnleysi felist. Sem bara almennur borgari, þegar ráðherra kemur og segir: Hérna er stjórnleysi; stjórnleysi á húsnæðismarkaði, stjórnleysi í heilbrigðismálum, stjórnleysi í flóttamannamálum, þá býst maður við einhverjum viðbrögðum eða a.m.k. að það sé komið og betur útskýrt hvernig stjórnleysið sé og hvernig eigi síðan að laga það, til að vekja öryggistilfinningu hjá fólki. En það er eitthvað af þessu sem sumir stjórnarliðar hafa verið að saka stjórnarandstöðuna um, að tala óvarlega og nota einhver gífuryrði. En þetta eru orðin sem við sjáum koma frá ráðherra og viðbrögð okkar við þessu eru bara: Það er ekki boðlegt að ráðherra tali svona. Miðað við frumvarpið, hvert er tilefnið til að ráðherra tali svona?