153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[19:29]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það er gott að heyra að hv. þingmaður styðji þarna ákveðnar breytingar og e.t.v. gæti þá verið um að ræða útfærslu á öðrum atriðum frumvarpsins í þinglegri meðferð. En að annarri spurningu varðandi þjónustusviptinguna þá langaði mig til að fá afdráttarlaust svar, eða reyna að fá það, frá hv. þingmanni um það hvort honum þyki eðlilegt að þeir sem hafa fengið endanlega synjun á umsókn um alþjóðlega vernd njóti hér fullrar þjónustu, jafnvel í nokkur ár eins og dæmin hafa sýnt okkur vegna erfiðleika við að framkvæma brottvísun, m.a. vegna skorts á samstarfi við viðkomandi. Ég ætla að biðja hv. þingmann að hafa í huga í svari sínu þær undanþágur sem er að finna í þessu frumvarpi, m.a. varðandi sanngirnissjónarmið og tæknilega örðugleika við brottför sem hafa ekki með viðkomandi að gera.