153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[19:36]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Aftur þetta með b-lið 1. gr. Ég held að það væri varla verið að mæla fyrir þessu ákvæði nema vegna þess að ráðuneytið hefur túlkað útlendingalögin þannig og þær stofnanir sem koma að þessum málaflokki hafa hingað til túlkað lögin með þeim hætti að umsækjandi um alþjóðlega vernd teljist enn þá umsækjandi um alþjóðlega vernd jafnvel þótt umsókninni hafi verið synjað. Þess vegna þarf að skýra þetta eða breyta þessu og í þessu tilviki hefur það þessar afleiðingar. Varðandi þjónustusviptingu og þvingaða brottvísun þá er það auðvitað þannig að í langflestum tilvikum fer fólk á endanum annaðhvort sjálfviljugt eða einmitt í lögreglufylgd. Ég held að það þyki ekki mjög eftirsóknarvert að dvelja lengur á landinu eftir að viðkomandi hefur farið í gegnum stjórnsýslustig og lokaákvörðun liggur fyrir. (Forseti hringir.) Í einhverjum tilvikum er fólki fylgt úr landi í lögreglufylgd. Það er bara þannig hér (Forseti hringir.) og annars staðar og það þarf að gera það með eins mannúðlegum hætti og unnt er með þá félagsráðgjafa eða sálfræðingi (Forseti hringir.) eða hvað það nú er. Það eru til ýmsar leiðir til að tryggja að þetta sé gert eins mildilega og mannúðlega (Forseti hringir.) og unnt er.

(Forseti (AIJ): Forseti minnir á að enn er tími til andsvara aðeins ein mínúta.)