153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[19:38]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Nú ræðum við hér í fimmta sinn mál dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins um útlendingamál. Í fjögur skipti hefur dómsmálaráðherrum flokksins mistekist að koma málinu í gegnum þingið en í hvert skipti hafa þeir þó reynt að þynna það út, gera það sakleysislegra, má kannski segja, í von um að þingmenn hleyptu því í gegn. Það hefur ekki tekist til þessa en hér ræðum við fimmtu tilraun. Hún kemur í beinu framhaldi af því að í lok síðasta þings var samþykkt annað mál sem varðaði hælisleitendur, mál um samræmda móttöku flóttamanna. Það var reyndar samþykkt í þriðju tilraun en með fulltingi Sjálfstæðismanna, mál frá Framsóknarflokki og Vinstri grænum sem Sjálfstæðismennirnir féllust á að keyra í gegn við lok síðasta þings án þess þó að fá að klára sitt eigið mál. Fyrir vikið veltir maður fyrir sér hvernig valdahlutföllin eru í þessari ríkisstjórn þegar Sjálfstæðisflokkurinn lætur hafa sig í það aftur og aftur að keyra í gegn mál samstarfsflokkanna sem jafnvel, eins og í þessu tilviki, ganga þvert á mál flokksins en nær ekki sínum eigin málum í gegn.

Þetta mál um samræmda móttöku snerist um það að allir ættu rétt á sömu þjónustu, sömu greiðslum og aðstoð, óháð því hvernig þeir kæmu til landsins þegar þeir hefðu fengið landvistarleyfi á einn eða annan hátt. Það gengur þvert á það sem hin Norðurlöndin hafa verið að gera, sérstaklega Danir, þar sem forsætisráðherrann danski, Mette Frederiksen, eins og ég hef nefnt nokkrum sinnum áður, segir það markmið stjórnvalda að enginn mæti til Danmerkur til að sækja um hæli heldur komi fólk í móttökustöðvar og sæki um þar og sé svo boðið til landsins. Þetta mál var að mínu mati mikil auglýsing fyrir Ísland sem áfangastað og til þess fallið að hvetja fólk til að fara af stað í hættuför til að kaupa ferðir hjá vægast sagt vafasömum aðilum út á væntingar um Ísland sem áfangastað. Mette Frederiksen sagði líka að Danmörk mætti ekki vera söluvara glæpagengja og við ættum að endurtaka það hér að Ísland megi ekki vera söluvara glæpagengja, en Ísland er samt orðið það. Íslensk stjórnvöld, þar með talið Sjálfstæðisflokkurinn, merktu Ísland rækilega sem slíkan áfangastað með því að samþykkja þetta frumvarp á sínum tíma en treysta sér þó ekki til að koma gegn þessu máli sem er hér komið í fimmta sinn en útþynnt og búið að taka úr því það sem átti nú að skipta mestu máli þegar það var fyrst kynnt, þ.e. að þeir sem kæmu hingað til að sækja um hæli og hefðu þegar fengið hæli í öðru landi yrði vísað nánast sjálfkrafa aftur til þess lands. Þetta er dottið út. Eftir stendur reyndar alveg furðu langt frumvarp um ótrúlega lítið og enn vandræðast menn með þetta. Sjálfstæðisflokkurinn og reyndar ríkisstjórnin öll virðist vera máttlaus, úrræðalaus í þessum málaflokki. Það sést hér enn á ný með þessu innihaldslitla, útþynnta frumvarpi og fimmtu tilraun til að ná því í gegn.

Þetta er hins vegar ekki byrjunin á vandræðagangi Sjálfstæðismanna í þessum málaflokki. Ástæðan fyrir ég nefni þetta, herra forseti, er að hæstv. dómsmálaráðherra sá ástæðu til að rifja hér upp áðan, eftir því sem hann minnti, aðdraganda þess að sett voru lög um útlendingamál sem þetta mál vísar til, þau lög sem hafa haldið utan um þennan málaflokk með vægast sagt misjöfnum hætti undanfarin ár. Og í ljósi þess að hæstv. ráðherra sá ástæðu til að nefna þetta sérstaklega finnst mér við hæfi að rifja upp hvernig þetta gekk fyrir sig. Vinnan við þetta hófst í tíð ríkisstjórnar áranna 2013–2016 af hálfu dómsmálaráðherra, sem þá hét innanríkisráðherra, Sjálfstæðisflokksins sem tók upp á því af einhverjum óskiljanlegum ástæðum að fela stjórnarandstöðu þess tíma að semja málið, þ.e. formaður nefndarinnar kom úr stjórnarandstöðunni og meiri hluti nefndarinnar var skipaður stjórnarandstöðuþingmönnum. Það þurfti ekki að taka þetta mál fyrir í ríkisstjórn vegna þess að þetta voru ekki lög, þetta var ekki lagafrumvarp. Þessi ráðherra Sjálfstæðisflokksins ákvað einfaldlega að útvista málinu til stjórnarandstöðunnar. Ég setti út á þetta ítrekað á ríkisstjórnarfundum og eftir ríkisstjórnarfundi og taldi þetta ekki gæfulegt en fékk þá í hvert sinn að heyra að ég ætti að bíða og sjá hvað kæmi út úr þessu. Í hvert sinn svaraði ég því til að ég hefði enga trú á að þetta myndi skila vænlegu frumvarpi og ef frumvarpið yrði óásættanlegt þá færi það ekki í gegnum ríkisstjórn. Svo er unnið í þessu áfram og það kemur frumvarp en þá hafði ég þurft að bregða mér frá, herra forseti, og það mátti ekki líta af þessu frekar en öðru því að frumvarpið fól í sér meingölluð lög um útlendinga. En það rann í gegnum ríkisstjórn þegar enginn var til að vakta þetta og hér í gegnum þingið án þess að ég hafi stutt það.

Á þessu frumvarpi, þessum lögum um útlendinga, byggist að miklu leyti sú þróun sem við höfum horft upp á undanfarin ár og sú þróun ágerist jafnt og þétt í sömu átt. Hvaða átt er það? Jú, að Ísland þykir vænlegri og vænlegri áfangastaður fyrir þá sem skipuleggja fólksflutninga. Ríkisstjórnin núverandi heldur áfram að bæta þar í, m.a. með þessum lögum sem ég nefndi að hefðu verið samþykkt við lok síðasta þings. Hún bætir við sérreglu. Hæstv. dómsmálaráðherra hefur reyndar viðurkennt að það séu ákveðnar sérreglur hér, seglar eins og ráðherrann kallar það, sem gera Ísland að vænlegri áfangastað en önnur lönd. Það birtist okkur áður en stríðið í Úkraínu hófst með því að fjöldi hælisleitenda hér var orðinn hlutfallslega áttfalt meiri en í Noregi og Danmörku.

Nú heyri ég í umræðunni að sumum hv. þingmönnum er illa við að tala um hlutfallstölur. Allt í einu hentar það ekki Íslendingum lengur að setja hlutina í samhengi við stærð þjóðarinnar og maður heyrir jafnvel rökstuðning á borð við þann að vegna þess að Ísland sé svo fámenn þjóð þá hafi tiltölulega lítill fjöldi svo hratt svo mikil áhrif á hlutfallið. En er það ekki akkúrat vandinn? Við erum ekki nema 350.000 manna þjóð eða þar um bil og fyrir vikið megum við ekkert við mjög miklu. Það er hætt við því að fjöldi sem þætti hugsanlega tiltölulega smár í Þýskalandi eða öðru stóru evrópsku ríki geti haft mjög veruleg áhrif á skömmum tíma á Íslandi, á innviði samfélagsins, á samfélagið allt og afstöðu almennings til þessara mála eins og við sjáum nú og hefur verið rætt eftir að ríkislögreglustjóri sá ástæðu til að lýsa yfir hættuástandi á landamærum. Í framhaldi af því heyrðum við til að mynda viðtöl við bæjarstjórann í Hafnarfirði sem sagði bæinn aðframkominn, ég man ekki hvort það var nákvæmlega orðið sem notað var, en að bærinn réði ekki við þann mikla fjölda sem við væri að eiga og að tvö stöðugildi sem menn hefðu talið í upphafi að nægðu til að halda utan um þetta væri nú orðin 16, áttfalt fleiri en áætlað var á skömmum tíma.

Þetta er reyndar í samræmi við annað í þessum málaflokki að kostnaðurinn, umfangið er falið ítrekað og þetta hefur verið svona lengi, m.a. með því að líta ekki til heildaráhrifanna, líta ekki til áhrifa á heilbrigðiskerfi, menntakerfi o.s.frv., heldur reyna menn að lágmarka kostnaðinn með því að líta eingöngu á það sem er beint hægt að tengja við þjónustu við þennan málaflokk. En þó hljótum við öll að vera sammála um að við Íslendingar sem stöndum, sem betur fer, mjög vel sem þjóð eigum að reyna að gera eins mikið gagn fyrir sem flesta sem eru í mestri neyð og við mögulega getum. En ef það er markmið okkar, ef markmið okkar er að sýna sem mesta mannúð — mannúð er annað orð sem er mikið notað í þessari umræðu — þá hljótum við að þurfa að skipuleggja okkur og forgangsraða á þann hátt að þau fjárráð sem við höfum úr að spila nýtist sem flestum sem eru í mestri neyð og nýtist sem best.

Eftir að stríðið í Úkraínu hófst breyttist staðan auðvitað mjög verulega. Ísland, ásamt held ég flestum öðrum Evrópuríkjum, taldi tilefni til að hafa sérreglur um móttöku flóttafólks frá Úkraínu enda er þar um að ræða flóttafólk sem fellur kannski einna helst undir skilgreiningu Sameinuðu þjóðanna á flóttamönnum eins og lagt var upp með eftir seinni heimsstyrjöldina í flóttamannasáttmála Sameinuðu þjóðanna, þ.e. að taka á móti fólki vegna tímabundins neyðarástands í tilteknu landi, taka á móti því fólki í nágrannalöndum. Vandinn er sá að síðan flóttamannasáttmálinn var samþykktur, hefur eðli þessa máls gjörbreyst með auknum samskiptum, auknum möguleikum á ferðum milli landa og þar fram eftir götunum. Afleiðingin er sú að stór hluti förufólks er á ferðinni til að leita sér betri lífskjara fremur en að flýja dauðarefsingu eða beinlínis stríðsátök. Og maður hlýtur að sýna því skilning. Ég ímynda mér, herra forseti, að ég myndi sjálfur, eða ég vona það a.m.k., reyna við þessar aðstæður að leita þeirra tækifæra sem gæfust til að leita betri lífskjara í öðru landi. En vandi okkar og ekki bara Íslendinga heldur annarra vestrænna þjóða er að þegar umfang flóttamannavandans er orðið það sem það er þá getum við ekki tekið á móti öllum sem eru að leita sér að betri lífskjörum. Við þurfum að forgangsraða til að hjálpa þeim sem þurfa mest á hjálpinni að halda og gera það sem best.

Ég hef heyrt hér í umræðunni, til að mynda frá hv. þm. Loga Einarssyni, formanni Samfylkingarinnar, að viðbrögðin við þessu þurfi að vera þau að aðstoða lönd við þróunaraðstoð og ég er fullkomlega sammála því að við eigum að gera eins mikið og við mögulega getum til að aðstoða þróunarlönd við að ná árangri efnahagslega og byggja upp sín samfélög. Vandinn er bara sá hvað varðar flóttamannamálin að straumur fólks frá löndum minnkar ekki eftir því sem velferð eykst eða eftir því sem þjóðarframleiðsla og landstekjur aukast, hann eykst. Þegar fólk fær tækifæri, nægt fjármagn til að ferðast þá eykst til mikilla muna straumur fólks frá löndum eftir því sem tekjur aukast upp að vissu marki sem er töluvert hátt og hefur verið miðað við Albaníu. Þaðan er þó enn þá straumur til Vestur-Evrópu. Jú, aðstoðum löndin eins mikið og við mögulega getum með þróunaraðstoð en það mun ekki draga úr fjölda hælisleitenda, það mun auka hann. Árangur í þróunarlöndum mun auka fjölda hælisleitenda. (Forseti hringir.) Það er fyrst og fremst áminning um mikilvægi þess, í ljósi umfangs vandans, að við verðum að forgangsraða til að hjálpa þeim sem eru í mestri neyð.