153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[19:57]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og það er sannarlega rétt að það þarf að hafa ansi mikið fyrir því að viðhalda misskiptingu í heiminum þó að mörgum þyki það mikilvægara heldur en þeirri er hér stendur. Varðandi flóttafólk frá Venesúela sem hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni og hefur nefnt áður í þessu samhengi þá langar mig til að vitna hér beint í úrskurð kærunefndar útlendingamála þar sem hún komst að þeirri niðurstöðu að það hefði ekkert breyst sem réttlætti breytta stjórnvaldsframkvæmd Útlendingastofnunar í þeim málum, þar sem hún hafði áður verið að veita viðbótarvernd að fyrirmælum ráðuneytisins. Í úrskurðinum er m.a. vísað í Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, verndara flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna, að það sé mat stofnunarinnar að meiri hluti venesúelskra ríkisborgara hafi ríka þörf fyrir vernd vegna ástandsins í Venesúela, með leyfi forseta:

„Atburðir undanfarinna ára hafi raskað allsherjarreglu í landinu og sé líf þeirra, öryggi og frelsi því í hættu. Í ljósi ástandsins hafi Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hvatt aðildarríki til þess að senda venesúelska ríkisborgara ekki aftur til landsins.“ (Forseti hringir.)

Einnig segir í úrskurðinum, með leyfi forseta:

„Af framangreindum gögnum er ljóst að yfirvöld í Venesúela og vopnahópar á þeirra vegum (Forseti hringir.) hafa framið svívirðilega glæpi sem geti fallið undir skilgreiningu á glæpum gegn mannkyni og hafi meiri hluti glæpanna (Forseti hringir.) verið hluti af kerfisbundnu ofbeldi gegn almenningi í samræmi við eða til að framfylgja stefnu stjórnvalda. Þá geti almennir borgarar hvorki treyst á vernd lögregluyfirvalda né opinbera aðstoð.“

Ég spyr hv. þingmann: (Forseti hringir.) Telur hann fólk í þessari stöðu ekki vera flóttamenn?

(Forseti (AIJ): Forseti minnir þingmenn á að tíminn er af afskaplega skornum skammti hér, allt of stuttur tími.)