153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[20:03]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Aðeins þá að öðru. Við vitum það hérna á Íslandi að allar greiningar benda til þess að það þurfi miklu fleiri en sem nemur náttúrlegri fjölgun Íslendinga til að standa undir þeim verðmætum og velferð sem við ætlum að reyna að byggja upp á næstu áratugum. Það vantar með öðrum orðum fleira fólk en bara Íslendinga. Við erum með alls konar vangaveltur og pælingar um það hvernig við getum gert þetta, sótt einhverja sérfræðinga og liðkað fyrir því að þeir geti komið utan EES-svæðisins. Svo ferðast fólk innan EES-svæðisins og allt þar fram eftir götunum. En ég velti fyrir mér og langaði kannski að fá hugleiðingar hv. þingmanns um það hvort hann telji það ekki jákvæða afleiðingu af hælisleitendakerfinu, þótt það sé ekki hugsað þannig, að hingað kemur fólk sem þráir það eitt að geta unnið, séð fjölskyldum sínum farborða, skapað verðmæti og svo að sjálfsögðu kynslóðirnar sem á eftir koma? Á þetta fólk ekki líka að vera partur af þessari umræðu um hinar vinnandi hendur sem við þurfum til að búa til verðmæti og velmegun í framtíðinni?