153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[20:04]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður kemur hér inn á gríðarlega áhugavert mál, sem er kannski aðeins utan við það frumvarp sem við ræðum, sem full ástæða er til að taka heila umræðu í og ég næ ekki að svara í stuttu andsvari. Ég vil þó byrja á að segja að það hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir samfélagið ef það er ekki sjálfbært. Ef við munum stöðugt þurfa að flytja inn fólk til að viðhalda kerfinu þá fer fer það að líta út eins og píramídasvindl. Við hljótum að vilja hafa sjálfbært samfélag en um leið hefur það reynst þjóðum gríðarlega vel að fá utanaðkomandi fólk, sérstaklega fólk með þekkingu á ákveðnum sviðum. Það hefur reynst löndum og borgum gríðarlegur fengur að fá slíkt fólk og laða það að sér. En þá þurfum við líka að huga að öðru sem er réttmæti þess að Vesturlönd yfirbjóði eða reyni að hafa af þróunarlöndum fólk sem þessi lönd hafa menntað og er nauðsynlegt til að viðhalda og byggja upp þau lönd. Þetta eru mjög áhugaverðar spurningar og stærri en ég næ að svara í stuttu andsvari.