153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[20:06]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar að byrja á því að spyrja hvað hv. þingmaður telur að sé í þessu frumvarpi sem tekur á þeim verkefnum sem við erum að fást við í dag, verkefnum sem hefur verið flaggað varðandi fordæmalausan fjölda fólks á flótta í heiminum; 7 milljónir frá Úkraínu og 7 milljónir frá Venesúela frá upphafi. Aðrar 7 hafa flúið Sýrland. Hvað í þessu frumvarpi tekur á þeim verkefnum sem við fáumst við á Íslandi í dag? Getum við með þessu frumvarpi á einhvern hátt lokað landamærunum fyrir fólki sem er í leit að vernd? Getum við bjargað heilbrigðiskerfinu sem er að niðurlotum komið ef þetta fólk er ekki hér? Hvað er það í þessu ágæta frumvarpi, eða ekki svo ágæta, sem leysir þá stöðu sem er uppi.