153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[20:08]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Um 80% þeirra sem hafa sótt um vernd á Íslandi koma frá ríkjum sem stjórnvöld hafa boðið velkomin, þ.e. Úkraínu og Venesúela. Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn tók þá ákvörðun í nóvember á síðasta ári, fyrir tæpu ári síðan, að hefja rannsókn á því hvort stríðsglæpir hafi verið framdir í Venesúela. Því er ástandið í Venesúela í samræmi við það sem kærunefnd útlendingamála hefur komist að með stuðningi gagna frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, að þar ríki vargöld, að stríðsglæpir hafi mögulega verið framdir o.s.frv. Í ljósi þess að um 80% þeirra sem sækja um vernd koma frá ríkjum sem stjórnvöld hafa ákveðið, ýmist kærunefnd eða beinlínis ríkisstjórnin, að fái vernd í samræmi við okkar alþjóðlegu skuldbindingar, telur hv. þingmaður að þetta frumvarp komi til með að breyta einhverju varðandi þann fjölda sem hingað kemur?