153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[20:09]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Satt best að segja tel ég að þetta muni ekki breyta mjög miklu, þetta mun ekki einu sinni koma í veg fyrir áframhaldandi aukningu. En ég geri ekki ágreining um að það sé ekki gott að búa í Venesúela. Fyrir okkur, 350.000 manna þjóð sem reynir að gera sem mest gagn fyrir fólk í mestri neyð, felst vandinn í því að það eru svo mörg og stór lönd þar sem ástandið er ekki viðunandi. Tökum dæmi um eitt land þar sem hættustigið er metið álíka mikið og fátæktin álíka mikil: Pakistan. Ef Ísland ákvæði sérstaklega að opna á straum fólks þaðan, hvar myndum við draga mörkin? Nú nefni ég bara þetta eina land sem dæmi. Það mætti nefna önnur lönd; El Salvador, Hondúras, Kólumbíu, Búrúndí, Suður-Súdan, Kongó, Sómalíu, Níger, Mósambík o.s.frv. (Forseti hringir.) Við verðum því miður, herra forseti, að forgangsraða til að geta sem best nýtt möguleika okkar á að hjálpa fólki í neyð.