153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[20:11]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég ætlaði að spyrja hv. þingmann hvort hann sæi nú ekki fyrir sér að styðja þær mikilvægu breytingar sem hér liggja fyrir en ég held að ég hafi heyrt rétt í andsvari að hann hyggist gera það þó að hann hefði viljað ganga lengra og jafnvel breyta bara í heild verndarkerfinu, bara eins og Evrópa hefur verið að praktísera það, sem er auðvitað bara heimspekileg og skemmtileg umræða en kannski erfitt fyrir Ísland eitt að stíga út úr og gera hlutina með allt öðrum hætti.

En mig langar að spyrja hv. þingmann aðeins út í þetta með samræmdu móttökuna. Ég hef heyrt margar, margar ræður hjá hv. þingmanni Miðflokksins þar sem hann er mjög á móti þessu. Nú heimsótti ég og hv. þingmaður í dag samræmda móttöku hjá okkur, Fjölmenningarsetrið, þar sem þau koma saman í Domus Medica þar sem við búum einmitt til svona mikilvægt og gott ferli fyrir þá sem eru hér að sækjast eftir alþjóðlegri vernd og Úkraínufólkið líka sem fær hér strax dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Ég sé fyrir mér að þetta sé svo miklu betri þjónusta við fólkið sjálft. Ég held líka að þetta sé miklu skilvirkara fyrir okkar stofnanir sem eru að veita þessa þjónustu. Þannig að ég spyr eiginlega hv. þingmann: Er hann ekki sammála mér í því að þetta sem við sáum í dag og sjáum hvernig er að virka í Domus Medica sé kannski bara alveg til fyrirmyndar?