153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[20:12]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Útlendingastofnun og margt það fólk sem er að vinna að þessum málum á Íslandi stendur sig afar vel. Ég geri ekki lítið úr því. Í morgun sáum við þetta í framkvæmd og ég verð bara að segja hreint út að þegar maður hittir, maður á mann, fólk sem er í neyð þá vill maður auðvitað gera allt sem maður mögulega getur fyrir það fólk. En við getum ekki leyft okkur að nálgast þennan málaflokk eingöngu maður á mann, ákveða hvernig mál fara t.d. eftir því hverjir komast í fjölmiðla og hverjir ekki. Við verðum við þetta risastóra viðfangsefni sem málefni flóttamanna eru að forgangsraða þannig að tækifæri okkar og fjármagn nýtist þeim sem eru í mestri neyð sem best. Þá einfaldlega verðum við að leyfa okkur að horfa á heildarmyndina. Hluti af vandanum við þessa samræmdu móttöku, kannski aðalvandinn, er að með því er búinn til segull, eins og hæstv. dómsmálaráðherra hefur kallað það, settur nýr stór segull á Ísland til að hvetja fólk í hættuför hingað.