153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[20:14]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég get tekið undir það að við þurfum einmitt að horfa á stóru myndina og við þurfum að forgangsraða, ég er hjartanlega sammála því, og við eigum einmitt fyrst og fremst að þjónusta það fólk sem er í raunverulegri neyð.

Við skoðuðum einmitt svona samræmda móttöku í Danmörku þannig að hv. þingmanni hefur verið tíðrætt um greinilega einn af sínum uppáhalds stjórnmálamönnum, Mette Frederiksen í Danmörku, og vísar þá væntanlega í einhverjar ræður sem forsætisráðherra Danmerkur hefur haldið en það er ekkert í samræmi við það hvernig danska systemið virka. Þar var einmitt einn staður sem við komum á þar sem var tekið á móti öllum á sama stað og það er eins í Noregi þó að við höfum því miður ekki haft tækifæri til að skoða það.

Mig langar því að nota tækifærið og spyrja hv. þingmann hvort hann kannski geti þá sameinast um þessar hugmyndir sem ég hef verið að tala fyrir, að við horfum á samræmda móttöku, líka með búsetuúrræðum, og horfum þá sérstaklega til Noregs. Ég vil líka kannski spyrja hv. þingmann hvort honum finnist Noregsmódelið, ef svo mætti að orði komast, kannski ekki bara ágætismódel fyrir okkur hér á Íslandi til að horfa til. En þar hafa þeir einmitt náð miklum tökum í því að aðlaga (Forseti hringir.) og aðstoða það fólk sem hefur fengið vernd úti í sveitarfélögunum þannig að sveitarfélögin hafa fengið góða greiðslu og það er svona einhvers konar samræmd móttaka sem þar hefur verið við lýði.