153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[20:39]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir prýðisræðu og áhugaverða. Nú lýsti hv. þingmaður því yfir, og formaður flokks hans, að hann myndi styðja frumvarpið. Hann tók jafnframt fram að stoðkerfi væru að kikna og mér heyrðist á honum að frumvarpið gengi ekki nægilega langt. Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hvað er það í þessu frumvarpi sem breytir einhverju? Er það að taka af kærufrestinn? Er það 30 daga reglan, að taka réttinn af fólki eftir 30 daga? Meira að segja sérreglan um 12 mánuðina, henni er grautað saman í c-lið 8. gr. 12 mánaða reglan er formregla, þ.e. einstaklingur sem sækir um hæli en er ekki flóttamaður á rétt á efnismeðferð bara ef hann nær að vera fram yfir 12 mánuðina. Þá fær hann efnismeðferð til að vita hvort hann sé flóttamaður eða ekki. Það er notuð formregla þarna til að fá efnismeðferð. Hvað er það sem breytir einhverju? (Forseti hringir.) Er eitthvað í þessu frumvarpi sem mun breyta stöðunni í dag? Það hefur þegar komið fram að í ár erum við að fá 3.342 flóttamenn (Forseti hringir.) og hælisleitendur, fara sennilega upp í 3.700. Það er 1% af þjóðinni. Hvað er það í frumvarpinu sem er svona gott?