153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[20:46]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mér fannst hún mjög hressandi. Ég hafði gaman af því að hlusta, þó að ég væri ekki sammála öllu, sérstaklega á kaflann þar sem verið var að greina þann vandræðagang sem er á milli ríkisstjórnarflokkanna í þessu máli. Ég hef sjálfur svolítið verið að benda á þá furðulegu atburðarás sem varð 19. október þegar maður heyrði það allt í einu í hádegisfréttum klukkan kl. 12 að útlendingafrumvarpið væri fast í þingflokki Sjálfstæðisflokksins en komið út úr þingflokkum VG og Framsóknar. Heyrði það svo í hádegisfréttum örstuttu síðar á RÚV að það kæmist ekki hnífurinn á milli þingmanna Sjálfstæðisflokksins og dómsmálaráðherrans. Heyrði það svo í fréttum klukkan fjögur að þingflokkurinn væri búinn að afgreiða frumvarpið út með fyrirvörum, en í millitíðinni hafði hæstv. dómsmálaráðherra sagt í Fréttablaðinu klukkan eitt að málið væri enn í ráðuneytinu. Það er því ekki nema skrýtið að maður klóri sér svolítið í kollinum. Ég er að vona að þingmenn VG og Framsóknar séu svona hálfvolgir í stuðningi sínum við þetta mál.

Ég ætla að spyrja hv. þingmann: Ef það fer þannig að við fáum að greiða atkvæði um þetta mál endanlega og það kemur í ljós að þingmenn VG og Framsóknar styðja það ekki heils hugar, hver er þá staða ríkisstjórnarinnar?