153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[21:02]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jódísi Skúladóttur fyrir að sýna okkur þá virðingu að taka þátt í þessari umræðu fyrir hönd síns flokks, sem mér sýnist hún því miður ætla að gera nánast ein síns liðs. Hv. þingmaður talaði um marga góða hluti en fór ekki einu einasta orði um það frumvarp sem við ræðum hér í dag. Hún talar um mikilvægi inngildingar og annarra hluta sem varða það að taka á móti fólki inn í samfélagið. Því langar mig að spyrja hv. þingmann: Hvað í þessu frumvarpi mun auðvelda inngildingu flóttafólks sem hingað kemur? Er það ákvæðið sem kemur í veg fyrir að fólk sem kemur hingað í gegnum kvótaflóttakerfið geti fengið fjölskyldusameiningu við maka? Er það ákvæðið sem segir að ef þú, lögmaður þinn, fjölskyldumeðlimur eða einhver, einhvers staðar nálægt þér á einhverjum tímann á einhverjum tímapunkti hefur með það að gera að málið tafðist (Forseti hringir.) þá verður þú endursendur þótt þú hafir verið hérna í 12 mánuði? Er það það að ef við erum ekki sammála þér um þörf þína fyrir vernd þá þurfir þú að búa á götunni það sem eftir er? Hvað nákvæmlega í þessu frumvarpi telur hv. þingmaður að stuðli að inngildingu flóttafólks hér á landi?