153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[21:17]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið öðru sinni. Ég held það sé alveg ljóst að við hv. þingmaður erum ekki alveg sammála um tilgang þess að koma þessu út. Ég ítreka að það er ekki mín sýn, ef ég tala fyrir mig persónulega sem þingmann, að frumvarpið sé fullkomið. Það er ekki mín sýn á þetta frekar en nokkur önnur mál, hvort sem það eru stjórnar- eða þingmál, að þau komi fullbúin og tilbúin hér inn og engrar umræðu sé þörf. Inni í nefndinni fáum við athugasemdir. Ég myndi ekki segja að hver einasta athugasemd væri falleinkunn en við höfum fengið mjög góðar ábendingar, sumar mjög neikvæðar, og þeim þurfum við að halda til haga og vinna málið áfram. Ég ætla að fá að segja það að niðurstaðan er sú að við erum komin hér inn í þingsal til að ræða frumvarpið, ekki til að ræða stöðu meiri hluta og minni hluta, ekki til að athuga hvar fólk er statt í húsinu eða utan húss. (Forseti hringir.) Ég kalla frekar eftir því að málið sé rætt á þeim grunni frekar en öðrum.