153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[21:23]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að fagna gleðinni hér í þingsalnum yfir því að Framsóknarþingmaður sé kominn til að taka þátt í umræðunni. Eins og ég hef áður nefnt í kvöld þá auðvitað fagna ég henni og hún hefur verið fyrir margra hluta sakir gagnleg. Við ræðum hér frumvarp sem lagt hefur verið fram á undanförnum þingum og ekki fengið brautargengi. Frumvarpið er nú lagt fram í breyttri mynd og gengur til allsherjar- og menntamálanefndar í lok umræðunnar. Ég vil þakka dómsmálaráðherra fyrir yfirferðina. Hann reifaði hér í byrjun umræðunnar málið. Þó vil ég í stuttu máli aðeins fara yfir frumvarpið frá mínum bæjardyrum séð.

Staðan í flóttamannamálum í heiminum er dökk. Talið er að yfir 100 milljónir manna séu á flótta og líklegt að sá vandi aukist enn á næstu árum. Stríð, hungursneyð og efnahagsþrengingar gera það að verkum að fólk flýr heimaland sitt og leitar að betra lífi. Einnig sjáum við afleiðingar loftslagsbreytinga sem munu jafnvel leiða til þess að ákveðin svæði verða óbyggileg. Það lítur sem sagt út fyrir að flóttamannavandinn muni aukast.

Hælisleitendakerfið er mikilvægt í þessu ljósi og er kerfinu ætlað að tryggja velferð fólks í neyð. Fólk sem flýr hörmungaaðstæður getur sótt um alþjóðlega vernd og fengið tækifæri til að dvelja fjarri heimahögum. Kerfið er ekki ætlað þeim sem einvörðungu eru að leita auknum lífsgæðum. Til þess gefst kostur á að sækja um dvalarleyfi og atvinnuleyfi á grundvelli þeirrar löggjafar sem gildir í hverju landi fyrir sig.

Fram kemur í greinargerð frumvarpsins að ætlunin sé að breytingarnar mæti þeim annmörkum sem hafa komið í ljós við beitingu ákvæða laga um útlendinga varðandi alþjóðlega vernd sem öðluðust gildi 2017. Er ætlunin að gera framkvæmd þessara ákvæða skýrari og fyrirsjáanlegri og þar með að auka skilvirkni með mannúð við meðferð mála að leiðarljósi.

Undanfarin ár hefur verið veruleg fjölgun á umsóknum um alþjóðlega vernd frá umsækjendum sem hafa dvalið í öðru ríki innan Schengen-svæðisins áður en óskað hefur verið eftir alþjóðlegri vernd hér á landi. Dæmi eru um að umsækjendur séu þá komnir með alþjóðlega vernd í því landi sem þeir koma frá eða hafa sótt um leyfi þar sem niðurstaða umsóknar liggur ekki fyrir. Einnig eru dæmi þess að viðkomandi hafi þegar fengið synjun á alþjóðlegri vernd í öðru landi eða dvalist í öðrum aðildarríkjum innan Schengen-svæðisins á grundvelli dvalarleyfis eða vegabréfsáritunar.

Í frumvarpinu er lagt til að skilvirkni sé aukin með því að mál umsækjenda í umræddri stöðu sæti sjálfkrafa kæru til kærunefndar útlendingamála nema umsækjandi óski þess sérstaklega að kæran fari ekki fyrir nefndina. Tilgangurinn er að stytta málsmeðferðartíma án þess að skerða réttarvernd umsækjenda. Einnig er lagt til í frumvarpinu að þeir sem fengið hafa endanlega synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd njóti áfram réttinda þar til viðkomandi hefur yfirgefið landið en þó að hámarki í 30 daga frá því að ákvörðunin var endanleg. Að þeim tímafrestum loknum falla réttindi niður. Tekið er sérstaklega fram í frumvarpinu að ekki er heimilt að fella niður réttindi barna, foreldra eða umsjónarmanna þeirra og annarra heimilismanna sem teljast til ættingja barna, barnshafandi kvenna, alvarlegra veikra einstaklinga og fatlaðra einstaklinga með langvarandi stuðningsþarfir. Einnig segir að í þeim tilvikum þegar umsækjandi er ríkisborgari EES- eða EFTA-ríkis, eða kemur frá ríki sem er á lista Útlendingastofnunar yfir öruggt upprunaríki og umsókn viðkomandi hefur verið metin bersýnilega tilhæfulaus, falli réttindi niður þegar Útlendingastofnun hefur synjað umsókn um alþjóðlega vernd.

Virðulegi forseti. Ég skil tilgang umræddra breytinga og legg áherslu á að þeir sem hingað leita eftir alþjóðlegri vernd fái réttláta og vandaða málsmeðferð og að afleiðingar breytinga séu vel hugsaðar og nái tilgangi sínum. Fjölgun umsókna undanfarinn áratug sýnir hversu mikilvægt er að stjórnvöld geti brugðist við og aðlagað verndarkerfi þegar reynsla er komin á lagaramma þess. Það sem af er ári hafa um 3.000 manns óskað eftir alþjóðlegri vernd hér á landi og eru tveir þriðju þeirra að flýja sprengjuregn í Úkraínu. Hluti þess fólks hefur horft upp á hörmungar sem vart er hægt að lýsa með orðum. Mikilvægt er að efla enn frekar andlegan stuðning við þann hóp sem kemur úr beinu stríðsástandi.

Töluverð vinna hefur nú þegar átt sér stað á vegum allsherjar- og menntamálanefndar er lýtur að upplýsingaöflun og þekkingaraukningu á málaflokki hælisleitenda. Nefndin kynnti sér stöðu málaflokksins bæði í Noregi og Danmörku. Nefndin fundaði með systurstofnun Útlendingastofnunar hér í landi, félagasamtökum, hagsmunasamtökum og þingnefndum og heimsótti m.a. móttökubúðir Rauða krossins í Danmörku svo að eitthvað sé nefnt. Nefndin hefur einnig fengið kynningar frá Útlendingastofnun hér á landi og heimsótt móttöku hælisleitenda sem staðsett er í Domus Medica. Ég vil þakka þeim fjölda fólks sem starfar innan málaflokksins, oft og tíðum við erfiðar aðstæður þegar mikið gengur á, og þakka þeim sérstaklega fyrir móttökurnar og greinargóðar upplýsingar.

Virðulegi forseti. Meðal þeirra áskorana sem tilheyra málaflokknum eru málefni fylgdarlausra barna. Í umræddu frumvarpi er sérstaklega gerðar breytingar er miða að því að gæta að hagsmunum barna sem sækja um alþjóðlega vernd og bætt við reglugerðarheimild til að styðja við innleiðingu barnvæns hagsmunamats við meðferð umsókna þeirra. Í dag eru 19 fylgdarlaus börn í umönnun barnaverndaryfirvalda í Suðurnesjabæ til að mynda og enn bætist við. Mjög mikilvægt er að tryggja þjónustu við fylgdarlaus börn með þéttu samstarfi ríkis og sveitarfélaga og fjármögnun í takt við þarfir.

Í frumvarpinu er lagt til að útlendingar sem fengið hafa dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, eða vegna sérstakra tengsla við landið samkvæmt lögum um útlendinga, verði undanþegnir kröfu laga um atvinnuréttindi í þeim tilgangi að draga úr skilyrðunum og einfalda atvinnuþátttöku þeirra. Ég tel þetta til bóta og er á þeirri skoðun að virkni og atvinna sé lykillinn að aðlögun fólks inn í samfélagið.

Það er mikilvægt fyrir okkur að ná sátt um breytingar á lögum um útlendinga og tryggja að verndarkerfið virki fyrir þá sem það á að vernda. Einnig þurfum við að tryggja aðlögun þeirra sem hér fá vernd. Til að mynda í Noregi sinna sveitarfélögin fimm ára aðlögunaráætlun sem fjármögnuð er af norska ríkinu og vert er að horfa til frændþjóðar okkar í þeim efnum.

Ég vænti þess að frumvarpið fái nú góða umfjöllun í allsherjar- og menntamálanefnd og að um það náist sem mest sátt svo að hægt sé að gera það að lögum hér á Alþingi með mannúð að sjónarmiði.