153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[21:36]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóhanni Friðrik Friðrikssyni fyrir ræðu sína en í henni minntist hann á að það sé mikilvægt að flóttamannakerfið og hæliskerfið geti tekið utan um fólk sem raunverulega þarf á vernd að halda, fólk sem er að flýja stríð og aðrar hörmungar, en að þetta kerfi sé ekki ætlað þeim sem einvörðungu eru að leita að auknum lífsgæðum, svo ég noti beint orðalagið sem hv. þingmaður notaði. Nú liggur fyrir að aukinn fjöldi flóttafólks til Íslands á undanförnum misserum er fyrst og fremst vegna fólks frá Úkraínu og frá Venesúela. Hóparnir sem koma þar á eftir eru fólk frá Palestínu, frá Sýrlandi o.s.frv. Ég vil spyrja hv. þingmann um hvaða fólk hann er að tala þegar hann er að tala um fólk sem er einvörðungu að leita að auknum lífsgæðum.