153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[21:39]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hafa endurtekið þann hluta ræðu sinnar sem ég var að vísa til. En því miður þá svaraði hann ekki spurningu minni. Spurningin var: Um hvaða fólk er hv. þingmaður að tala þegar hann talar um fólk sem einvörðungu er að leita auknum lífsgæðum? Ástæðan fyrir því að ég spyr að þessu er sú að ég átta mig hreinlega ekki á því hvaða fólk er verið að tala um hér. Í fjölmiðlaumræðu hefur komið upp sá misskilningur að fólk sem er að flýja Venesúela sé ekki að flýja raunverulega lífshættu. Það hefur verið leiðrétt og m.a. af Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna sem hefur bent á að líf fólks sé í hættu þar og það eigi að veita því vernd. Ríki eru að veita fólki frá Venesúela vernd, hvað sem hún er kölluð. Þannig að ég ætla bara að fá að endurtaka spurningu mína til hv. þingmanns: Um hvaða fólk er hann að tala?