153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[21:48]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Jóhanni Friðriki Friðrikssyni fyrir málefnalega ræðu. Ekki er ég sammála öllu því sem kom fram í henni en þetta var heiðarleg yfirferð yfir hluta af málinu. Mig langaði að staldra við á einum stað í ræðunni þar sem talað var um þessa sjálfkrafa kæru til að stytta málsmeðferðartíma. Ég gat ekki betur heyrt en að hv. þingmanni þætti þetta til mikilla bóta. Þá langar mig að spyrja hvort hann gefi þá lítið fyrir skoðanir Rauða krossins á þessu málefni, sem eru einmitt þær að þessi sjálfvirka kæra vinni gegn fólki sem búið er að fá úrlausn sinna mála og á möguleika á að kæra einfaldlega vegna þess. Ég ætla að vitna í umsögnina:

„Hafa umsækjendur þannig þurft að nýta kærufrestinn til þess að bæta upp fyrir vanrækslu stjórnvalda á rannsóknarskyldu sinni svo öll nauðsynleg gögn geti legið fyrir á kærustigi. Hér skal einnig áréttað að úrskurður kærunefndar útlendingamála er lokaúrskurður í máli viðkomandi þar sem möguleikar umsækjenda (Forseti hringir.) um alþjóðlega vernd til þess að bera mál sitt undir dómstóla hafa verið takmarkaðir verulega.“

Það er sem sagt þannig að Rauði krossinn (Forseti hringir.) gefur þessari fyrirætlan algjöra falleinkunn. Gefur þingmaðurinn ekki (Forseti hringir.) neitt fyrir það?

(Forseti (JSkúl): Forseti minnir á að ræðutími í andsvörum er ein mínúta þegar fjórir hafa óskað eftir að veita andsvar.)