153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[21:53]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Frú forseti. Ég er orðin enn sannfærðari um það eftir þær fáu ræður og það litla sem hefur komið fram í þessari umræðu frá þingmönnum a.m.k. tveggja af þremur stjórnarflokkum að þau hafi mögulega ekki kynnt sér frumvarpið til hlítar. Það er eina skýringin sem ég get fundið á því að þau séu að hleypa þessu í gegnum sína þingflokka miðað við þeirra ræður hér í dag.

Hv. þingmaður Jódís Skúladóttir talaði um inngildingu og mikilvægi hennar. Hv. þm. Jóhann Friðrik Friðriksson talaði um fólk sem er einvörðungu að leita sér að auknum lífsgæðum en gat ekki með nokkru móti tilgreint hvað hóp fólks hann væri að tala um eftir að ég benti á að það fólk sem er fyrst og fremst að sækja hingað væri frá Úkraínu, Venesúela, Palestínu, Sýrlandi og öðrum ríkjum þar sem mikil neyð ríkir og það ekki efnahagsleg.

Ég ætla því að nýta þessa fyrstu ræðu mína í það að fara bara örlítið yfir þetta frumvarp og reyna að útskýra á einhvers konar mannamáli hvað er verið að gera með þessu frumvarpi. Bara svona í grófum dráttum til að byrja með mun ég sýna fram á að breytingarnar munu ekki auka skilvirkni kerfisins, þær munu minnka skilvirkni kerfisins. Og þá er ég bara að tala um málsmeðferðarhraða og skilvirkni frá mjög kaldranalegu sjónarhorni. Þær munu minnka skilvirkni kerfisins með því að búa til flóknar sérreglur og undantekningar á ágætu regluverki sem samið var af þverpólitískri nefnd og sátt hefur ríkt um. Það þýðir ekki að það megi ekki gera einhverjar ákveðnar breytingar á þessum lögum. Það má gera en þær eru ekki brýnar og það hefur ekkert með þann vanda sem við stöndum frammi fyrir í dag að gera. Ég er alveg til í að ræða þær breytingar ef einhver hefur áhuga á því einhvers staðar en það virðist ekki vera.

Það sem gerist þegar skilvirknin er minnkuð með þeim hætti sem er lagt til í þessu frumvarpi er að kostnaður við málsmeðferð eykst. Málsmeðferð mun lengjast í mörgum málum. Því fólki sem er hér eftir mörg ár í málsmeðferð eða að lokinni málsmeðferð og er á uppihaldi ríkisins mun fjölga. Ég held ekki að það sé markmið allra þeirra þingmanna sem þó styðja þetta mál að mér heyrist.

Það er ekkert sem bendir til þess að breytingarnar sem gera á muni fækka umsóknum hér á landi eða með neinum öðrum hætti leysa þær áskoranir sem felast í þeim fjölda sem hingað sækir í dag. Nákvæmlega ekki neitt. Sem fyrr segir munu breytingarnar fjölga einstaklingum sem eru hér árum saman án þess að fá niðurstöðu í mál sitt þar sem verið er að eyðileggja ákvæði sem sett voru sérstaklega til að leysa það vandamál að hér dvaldi fólk árum saman án þess að fá niðurstöðu í sín mál. Það voru fundnar ákveðnar lausnir á því vandamáli og þær voru settar inn í lögin 2016 og hér á að eyðileggja þær með þessu frumvarpi til þess eins að stoppa í göt þar sem fólk hefur sloppið í gegn og fengið dvalarleyfi hér á landi. Það er náttúrlega tilgangur þessa frumvarps; að fækka þeim einstaklingum sem fá að vera hér til langdvalar. Kostnaður við uppihald og þjónustu eykst fyrir vikið.

Breytingarnar skerða réttindi fólks á flótta, líka fólks sem er í raunverulegri neyð — og ég ætla að segja: fyrst og fremst fólks sem er í raunverulegri neyð, vegna þess að það hefur verið margsýnt fram á að þorri fólks sem leitar verndar er í raunverulegri neyð. Það má vekja athygli á því að í þeim málum sem hér fara í efnismeðferð er hátt í 80% veitingarhlutfall hjá Útlendingastofnun sem þýðir að íslensk stjórnvöld viðurkenna sjálf að langstærstur hluti þeirra sem hingað leita sé í raunverulegri þörf fyrir aðstoð og stuðning og vernd.

Þá vil ég vekja athygli á því sem við sáum enn betur í dag þegar við fórum og heimsóttum Útlendingastofnun og það úrræði sem komið hefur verið upp á Egilsgötu við móttöku flóttafólks frá Úkraínu. Þær breytingar sem gerðar hafa verið á móttöku flóttafólks eftir innrásina í Úkraínu sýna að það þarf ekki að gera neinar lagabreytingar til að auka skilvirkni kerfisins til muna, fólkinu sjálfu til heilla og okkur og okkar ríkissjóði og þjóðfélagi. Vandinn við kerfið sem við búum við er ekki löggjöfin heldur framkvæmdin sem er, ég leyfi mér aftur að nota þetta orð og vona að ég fái ekki ávirðingu frá forseta: mannfjandsamleg. Hún skapar miklar tafir og tregðu í kerfinu. Það er framkvæmdin sem skapar tafir og tregðu, það er ekki löggjöfin. Regluverkið er skýrt og fínt. Áskorunin sem við eigum að vera að ausa peningum í frekar en þessa vitleysu eru innviðir okkar og tækifæri fyrir nýtt fólk til aðlögunar að samfélaginu, rétt eins og hv. þingmenn stjórnarflokkanna hafa verið að segja í ræðum sínum hér í dag. Við erum öll sammála held ég um vandamálið og ég held að við séum sammála um lausnirnar. Þær bara felast ekki í þessu frumvarpi.

Í stuttu máli munu breytingarnar samkvæmt frumvarpinu í fyrsta lagi afnema rétt fólks til að fá mál sitt endurupptekið ef ný gögn eða upplýsingar koma fram í málinu. Þessi réttur er mjög þröngur nú þegar og er í almennum stjórnsýslulögum sem gilda um réttindi allra borgara til að fá mál sitt endurskoðað í stjórnsýslunni ef ný gögn eða upplýsingar gefa tilefni til. Þau sérákvæði sem eru lögð til í þessu frumvarpi flækja reglur sem eru mjög skýrar og hafa gengið vel í öllum málaflokkum í áratugi. Ef þær hafa gengið eitthvað illa í meðförum Útlendingastofnunar eða kærunefndar útlendingamála er ástæðuna mun líklegar hægt að rekja til vanþekkingar eða skorts á þjálfun lögfræðinga á þeim bæjum í meðferð stjórnsýslulaga og stjórnsýsluréttar.

Ég ætla að leyfa mér að lesa upp úr 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, með leyfi forseta. Hún fjallar um endurupptöku máls:

„Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:

1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða

2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.“

Þetta er mjög þröng heimild sem stjórnvöld hafa til að endurupptaka mál, mjög þröngur réttur sem fólk hefur til að fá mál sitt endurupptekið ef eitthvað hefur breyst eða ný gögn koma í ljós, á daginn kemur að ákvörðunin var röng, byggð á röngum forsendum. Þetta á að afnema, bókstaflega, með þessu frumvarpi. Það stendur í frumvarpinu að 24. gr. stjórnsýslulaga skuli ekki gilda um umsóknir fólks um alþjóðlega vernd. Það sem á að gera með frumvarpinu er að flokka beiðni um endurupptöku sem endurtekna umsókn. Í greinargerð með frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„ Nauðsynlegt er að hverfa frá núverandi framkvæmd varðandi endurupptöku umsókna um alþjóðlega vernd og færa þess í stað inn í lögin sérstaka málsmeðferð endurtekinna umsókna að fyrirmynd annarra Evrópuríkja.“

Þarna verið að rugla tvennu saman, þ.e. annars vegar endurteknum umsóknum sem byggja á sömu forsendum og fyrri umsókn og rétti fólks, grundvallarrétti. Þetta eru lágmarksréttindi fólks til að fá mál sitt endurskoðað ef á daginn koma gögn sem sýna að ákvörðunin var röng. Samkvæmt greinargerðinni er m.a. áætlað að skýrari reglur auki skilvirkni innan umsóknarkerfisins. En þarna er ekki verið að skýra reglur, þarna er verið að búa til sérreglur um umsóknir um alþjóðlega vernd sem munu valda miklum vandkvæðum í framkvæmd þar sem við höfum þegar mjög skýrar reglur um rétt fólks til að fá mál sitt endurupptekið.

Annað sem til stendur að gera með þessu frumvarpi er að svipta fólk þeirri lágmarksaðstoð sem það fær að 30 dögum liðnum eftir lokasynjun. Undanþegin eru börn, foreldrar eða umsjónarmenn þeirra og ættingjar, barnshafandi konur, alvarlega veikir einstaklingar og fatlaðir einstaklingar með langvarandi stuðningsþarfir. Þess má geta að þessar undantekningar voru ekki inni í frumvarpinu þegar það var fyrst lagt fram heldur komu þær inn eftir mikinn þrýsting. Tilgangur þessa ákvæðis er að þrýsta á fólk að koma sér sjálft úr landi eftir að það hefur fengið synjun. Það er byggt á þeirri forsendu að hér sé svo mikið af fólki sem komi hingað bara til að leita að betra lífi og þess vegna muni það sennilega fara ef við hættum að moka undir það allri þessari frábæru þjónustu sem er verið að veita.

Einnig er gerð sú undantekning í frumvarpinu að ef útlendingurinn sýnir að hann hefur gert allt sem í hans valdi stendur til þess að aðstoða við flutninginn á sjálfum sér þá, ókei, fær hann þjónustu fram að flutningi. Vandinn er hins vegar sá að það eru dæmi um fólk sem hefur reynt um árabil — tíu ár í málinu sem kemur fyrst upp í hugann hjá mér — að sýna stjórnvöldum fram á að það geti ekki útvegað sér ferðaskilríki, sé jafnvel ekki ríkisborgarar í því ríki sem íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að það sé frá. Hvers hagur er það að þetta fólk lendi á götunni? Höfundar frumvarpsins virðast halda að þetta fólk gangi bara hérna án allra réttinda árum saman vegna þeirrar frábæru þjónustu sem íslenska ríkið veitir því. Þá langar mig bara að segja: Hvaða þjónusta er það sem er verið að svipta fólk eftir 30 daga? Það eru 8.000 kr. á viku á einstakling sem eiga að dekka allan fæðiskostnað, allar snyrtivörur, allar skemmtanir, samgöngur, allt, 8.000 kr. á viku, þak yfir höfuðið sem gjarnan er í herbergi með fólki sem er þér algerlega ókunnugt og þú jafnvel getur ekki talað við vegna tungumálaörðugleika, í húsnæði þar sem eru kannski fleiri og það skapar ákveðið hættuástand. Það eru bara óbærilegar aðstæður held ég fyrir allt venjulegt fólk. Hvaða aðstæður gæti fólk mögulega verið að flýja sem þetta ástand um alla fyrirsjáanlega framtíð toppar? Það út af fyrir sig ætti kannski að segja stjórnvöldum að fólk kemur ekki bara hingað til þess að leita að betri lífsgæðum. Þetta held ég að séu ekki betri lífsgæði en margt, nema hlutir sem við viljum kannski ekki geta ímyndað okkur.

Annað sem til stendur að gera með þessu frumvarpi er að heimila Útlendingastofnun að vísa fólki til annarra landa en heimaríkis, til landa þar sem fólk hefur ekki einu sinni heimild til komu eða dvalar. Þetta ákvæði kemur til af því að sérstaklega einstaklingar frá Venesúela eiga gjarnan ættingja sem hafa fengið vernd í nærliggjandi ríkjum og jú, það er mögulega eitthvað sem bendir til þess að hugsanlega gæti þessi einstaklingur líka kannski fengið vernd þar. Við vitum það samt ekki. Jú, það virðist vera af lögunum þeirra en við getum ekki greitt úr því á Íslandi þannig að við viljum bara geta sent þig þangað og þú bara finnur út úr þessu og sérð til. Vandinn við þessar ákvarðanir er sá að þær eru óframkvæmanlegar. Þær eru óframkvæmanlegar þegar við erum að tala um þvingaða flutninga vegna þess að ríki geta ekki bara droppað fólki þangað sem þeim dettur í hug. Það er ekki þannig að íslenska ríkið geti bara mokað einhverjum upp í flugvél og farið með þá þangað sem því hentar. Annaðhvort þarf viðkomandi að hafa heimild til komu eða dvalar í ríkinu eða viðkomandi ríki þarf að samþykkja það. Þetta er sannarlega vandamál. Þessi breyting er þannig lögð fram í samfloti við þjónustustýringuna því að til þess að þetta ákvæði geti virkað þá þarf fólk að fara sjálft, enda þvingaðir flutningar ekki í boði nema fólk hafi heimild til komu eða dvalar í móttökuríkinu eða móttökuríkið samþykki.

Með þessu frumvarpi er enn fremur verið að eyðileggja mikilvægar réttarbætur sem gerðar voru með lögunum árið 2016 þar sem settir voru inn frestir. Það voru settir inn frestir sem gera það að verkum að ef einstaklingur hefur verið hérna í meira en 12 mánuði, án þess að það sé einu sinni búið að ákveða hvort við ætlum að opna málið eða ekki, þá skuli málið opnað, það skuli tekið til efnismeðferðar. Í langflestum tilvikum erum við þarna að tala um fólk sem þegar hefur fengið viðurkennda stöðu flóttamanns þannig að efnismeðferð ætti ekki að taka langan tíma. Við erum meira að segja með ákvæði í 47. gr. laganna sem heimilar okkur einfaldlega að viðurkenna ákvörðun annarra stjórnvalda um að viðkomandi teljist flóttamaður. Því ákvæði hefur aldrei verið beitt svo að það komi fram.

Mig langar til að lesa upp tillöguna að þessu ákvæði í frumvarpinu þar sem þetta er ákaflega áhugavert. Í dag er það þannig að þessi 12 mánaða frestur gildir ekki ef einstaklingur hefur tafið mál sitt sjálfur. Þetta er rökrétt, ekki satt, svo að fólk sé ekki tefja mál sitt í 12 mánuði til þess eins að fá efnismeðferð?

Í frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Þá skal einnig taka umsókn til efnismeðferðar hafi umsækjandi ekki fengið endanlega niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 12 mánaða frá því að umsókn var lögð fram,“ — hefst nú langlokan: „enda hafi umsækjandi sjálfur, maki eða sambúðarmaki hans eða annar sem kemur fram gagnvart stjórnvöldum fyrir hans eða þeirra hönd ekki átt þátt í því að niðurstaða hafi ekki fengist innan tímamarka. Við mat á því hvort viðkomandi hafi borið ábyrgð á töfum á afgreiðslu máls skal m.a. líta til þess hvort viðkomandi hafi dvalist á ókunnum stað um tíma, framvísað fölsuðum skjölum,“ — sem þorri flóttafólks gerir — „eða gefið misvísandi upplýsingar um auðkenni sitt, ekki mætt í boðað viðtal eða læknisskoðun eða að öðru leyti ekki sýnt samstarfsvilja við meðferð, úrlausn eða framkvæmd máls. Teljist umsækjandi á einhverjum tíma“ — Á einhverjum tíma. Á fyrstu viku málsmeðferðar? — (Forseti hringir.) „hafa tafið mál sitt samkvæmt framangreindu á hann ekki rétt á efnismeðferð á grundvelli tímafrestsins í þessari málsgrein.“

Ég (Forseti hringir.) get ekki ímyndað mér nokkurn einstakling sem verður ekki hægt að færa undir þetta ákvæði. Það er verið að taka úr sambandi eina helstu réttarbótina fyrir kerfið, (Forseti hringir.) fyrir íslenskt samfélag og íslenskan ríkissjóð með þessu frumvarpi. (Forseti hringir.) Ég er fallin á tíma og ég er rétt að byrja.