153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[22:11]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það var komið hér inn á að það væri verið að skerða réttindi fólks í raunverulegri neyð. Það er einmitt ekki verið að gera það og það eru ríkar undanþágur í þessu frumvarpi þegar fólk er í samvinnu við stjórnvöld um að fara af landi brott. Fólk sem er í raunverulegri neyð getur verið áfram með þeim félagslegu úrræðum sem því fylgja. Við verðum bara að vera innilega ósammála um þetta. Sérfræðingar eru búnir að liggja yfir þessu og ég er sammála þeim að þetta muni auka skilvirkni í málum. Þetta mun auka það að við losum mál fyrr, þ.e. þau sem snúa að tilhæfulausum umsóknum og umsóknum sem fá synjun. Við erum kannski fyrst og fremst að horfa til þess að geta verið með skilvirka málsmeðferð gagnvart því fólki, til samræmis við það sem gengur og gerist í Evrópulöndunum. (Forseti hringir.) Einmitt er verið að færa endurtekna umsóknarferlið til málsmeðferðar þeirra sem eru í Evrópusambandinu. (Forseti hringir.) Svo var farið að ræða um innviði, (Forseti hringir.) virðulegur forseti, sem er algjörlega óskylt þessu máli. Það er hægt að ræða í löngu máli um hverjir eiga mesta sök á því.