153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[22:15]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir býsna góða yfirferð, býsna tæknilega, og verð ég að viðurkenna að ég átti fullt í fangi með að fylgja eftir öllu því sem þingmaðurinn fjallaði um hér, enda er hún með mikla þekkingu á þessum málum.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann aðeins út í orð hæstv. ráðherra fyrr í kvöld þar sem hann útskýrir þetta frumvarp og tilurð þess, þar sem hann segir að ástæða þess að fella niður kærufrest sé að stytta tíma sem ekki nýtist til málavinnslu. Ég vil spyrja hv. þingmann, sem starfaði í þessum málaflokki til hvers tíminn er nýttur, frestur til að leggja fram kæru og frestur til að leggja fram greinargerð. Til hvers nýtist slíkur tími þeim sem leitar réttar síns gagnvart stjórnvöldum?