153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[22:17]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég ætla að halda áfram á sömu braut. Þegar umsækjandi telur að ákvörðun lægra stjórnvalds, Útlendingastofnunar, sé byggð á misskilningi, sé röng, sé ekki studd fullnægjandi gögnum um ástæðu umsóknar um vernd og þörf fyrir vernd, hvaða gögn eru það sem getur þurft að afla? Eru það jafnvel gögn frá heimaríki? Hvaðan eru þessi gögn fengin? Hv. þingmaður nefndi hér sálfræðivottorð, sem verður ekki afgreitt yfir nótt, en ég velti því fyrir mér hvort það kunni að vera líka gögn sem varða einstaklinginn, sem þarf jafnvel að afla frá öðrum ríkjum. Getur verið um eitthvað slíkt að ræða?