153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[22:19]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Já, svo sannarlega. Í þeim málum sem fá synjun, þegar fólk fær synjun, segjum í efnismeðferð hjá Útlendingastofnun, þá er oftast um einstaklinga frá ríkjum að ræða þar sem er mjög einstaklingsbundið hvort fólk teljist vera flóttamenn eða ekki. Og því miður er framkvæmdin þannig hér á landi að það er ansi þung sönnunarbyrði lögð á umsækjanda þrátt fyrir að flóttamannasamningurinn sé skýr um að sönnunarbyrðin eigi í rauninni að vera í hina áttina, að þetta eigi fyrst og fremst að vera byggt á trúverðugleikamati og ef frásögn viðkomandi er í samræmi við aðstæður í heimaríki samkvæmt opinberum gögnum þá eigi hann að njóta vafans. Ég get nefnt dæmi um gögn sem ég hef þurft að afla, t.d. í máli sem vannst í endurupptöku. Kærunefndin tók málið upp aftur og komst að nýrri niðurstöðu: Við höfðum þurft að afla tölvupósts úr tölvupóstfangi látins manns í fjarlægu landi, sem dæmi, og það tók tíma.