153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[22:27]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Eyjólfi Ármannssyni fyrir andsvarið og fyrir spurninguna. Hann gerir að umtalsefni muninn á stöðu flóttamanns og viðbótarvernd og mannúðarleyfi sem ég ætla ekki að fara út í hér af því að ég hef einungis eina mínútu. Ég ætla hins vegar að svara spurningunni sem hv. þingmaður beindi til mín varðandi 8. gr. frumvarpsins, hvort þetta sé til samræmis við þær reglur sem gilda í öðrum ríkjum. Það er svolítið misjafnt. Það virðist nefnilega ríkja sá misskilningur í umræðunni að reglurnar séu nákvæmlega eins á öllum Norðurlöndunum, þær séu nákvæmlega eins í öllum Evrópuríkjum og að við skerum okkur einhvern veginn úr. Það er bara ekki staðan.

Það sem er lagt til þarna er líka ólíkt því sem gildir á Norðurlöndum. Jafnvel eftir þessar breytingar er ákveðinn munur á þessum ákvæðum og þeim lögum sem gilda á Norðurlöndunum. Ég er sannfærð um að sá málflutningur að við séum þarna að samræma einhverjar reglur sé bara fyrirsláttur.