153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[22:28]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er mjög gott að við séum bæði í allsherjar- og menntamálanefnd til að fjalla um þetta og gott að búa að hennar starfsreynslu í málinu. Varðandi viðbótarvernd þá liggur fyrir skilgreining á því. En það sem mér finnst varðandi 8. gr., sérstaklega varðandi 12 mánaða regluna — ég get bara ekki séð að hún sé að breyta neinu. Nú segir að ef það verði ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs eigi að taka það til efnismeðferðar. Svo er komin einhver krúsidúlla þarna í textann, hann hafi ekki átt þátt í því að niðurstaða hafi tafist, ekki fengist innan tímamarka og svo er eitthvað talið upp. Mér finnst verið að hjálpa stjórnsýslunni að finna þetta út, hún geti ekki ákveðið hvenær þetta er á ábyrgð umsækjanda og hvenær ekki, svo að það liggi fyrir. Þessar sérreglur Íslands eiga ekki heima í þessu.

Ég er mikill áhugamaður um þýðingar á tilskipunum Evrópusambandsins og ég hef fundið nokkrar villur, m.a. í persónuverndarlöggjöfinni. Er þetta ákvæði 7. gr. frumvarpsins, um endurtekna umsókn — er hugtakið endurtekin umsókn í tilskipun Evrópusambandsins? (Forseti hringir.) Er það ekki rétt, skildi ég hv. þingmann rétt, að þetta stangist á við stjórnsýslulög um endurupptöku máls?