153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[22:38]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Auðvitað getur ýmislegt komið til í lífi fólks og orðið til þess að það getur ekki mætt í tiltekna umræðu. Ég þykist þess fullviss að ef hæstv. dómsmálaráðherra hefði ekki átt heimangengt í dag hefði umræðunni verið frestað. Við fórum fram á það ítrekað hér áðan að umræðunni yrði frestað. Við vildum fá henni frestað til morguns. Svo kemur á daginn að hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra verður ekki heldur hérna á morgun. Það er mjög miður og lýtur ekki eingöngu að því ákvæði sem heyrir beinlínis undir hans málaflokk og má að mörgu leyti færa rök fyrir að hann sé að leggja fram með þessu frumvarpi, heldur eru önnur ákvæði í þessu frumvarpi sem hafa áhrif á hans störf og hans málaflokk. Þar erum við t.d. að tala um sviptingu þjónustu og annað sem færir í rauninni þjónustuþörfina bara eitthvert annað og líklega á hans herðar. Það er algerlega ótækt að hæstv. ráðherra sé ekki með okkur í þessari umræðu og það er ótækt að hann verði ekki hérna á morgun. Ef hann á ekki heimangengt þá er ekkert annað í stöðunni en að fresta þessari umræðu þangað til hann á heimangengt.