153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[22:42]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég sýni því skilning að hæstv. ráðherra eigi ekki heimangengt og geti ekki verið með okkur hérna í kvöld. En svo sannarlega hefði það verið betra að fá hans sjónarhorn á þetta mál vegna þess, eins og þingmenn hafa verið að rekja hér, að það er heldur betur margt sem fellur beint undir hans hatt, ef þannig má að orði komast, í þessu máli sem við erum að ræða hérna. En ég vil líka benda á að það er eitt að spyrja ráðherra á lokuðum þingnefndarfundi og annað að kalla eftir opinberri afstöðu ráðherrans til málsins á meðan það er til meðferðar í þingsal. Ástæðan fyrir því er kannski fyrst og síðast sú að orðaskipti á milli hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra og hæstv. dómsmálaráðherra um þennan tiltekna málaflokk hafa verið vægast sagt áhugaverð í gegnum tíðina. Þess utan hefur verið áhugavert að fylgjast með því að þeir þingmenn VG sem hér hafa verið að tala hafa ekki treyst sér til að lýsa yfir stuðningi við þetta mál sem þó er skráð sem stjórnarmál. Því væri áhugavert að heyra afstöðu hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra, hvort hann styðji einfaldlega þetta mál samráðherra síns.