153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[22:48]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp frá dómsmálaráðherra, svo að því sé til haga haldið, og dómsmálaráðherra hefur verið með okkur í salnum í allt kvöld. Ég ætla að leyfa mér, eins og margir hér, að taka víða umræðu um málaflokk útlendinga almennt. Mig langar samt fyrst að byrja á að taka það fram, vegna þess að hv. þm. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir sagði hér áðan að það væri stefna ríkisstjórnarinnar að veita sem fæstum vernd. Hv. þingmaður veit að þetta stenst enga skoðun. (Gripið fram í.) — Ekki það, nei? Tölurnar tala sínu máli. Við á Íslandi erum að taka á móti mun fleiri umsóknum en nágrannaríkin okkar og við veitum langflestum vernd. Þar af leiðandi er það ekki tilgangurinn með frumvarpinu að færra fólk fái hér vernd eða að færri sæki um. Ef stríðinu lyki í Úkraínu þá sæktu vonandi færri hér um og ég hef trú á því. En ástandið í Úkraínu brenglar að einhverju leyti þessa umræðu. Ef við tökum það nú aðeins til hliðar, tökum til hliðar grey fólkið sem er að flýja stríð í Úkraínu, þá er hér engu að síður söguleg fjölgun á umsóknum um alþjóðlega vernd. Eins og margoft hefur komið fram hefur hæstv. dómsmálaráðherra í gegnum tíðina lagt þetta frumvarp fram nokkrum sinnum. Flest árin síðan ég tók sæti hér á þingi hefur þetta mál komið hingað til umfjöllunar en því miður hefur það alltaf bara komist til 1. umr., sem er alla jafna meira svona stóra myndin. Svo fer það inn í nefnd og síðari umræður eru þá efnislega vinnslan.

Ég er í fyrsta skipti í hv. allsherjar- og menntamálanefnd og stýri henni á þessu kjörtímabili. Við fengum þetta mál seint til okkar síðasta vor og fengum kannski aðeins tækifæri til að taka á móti umsögnum og tala við umsagnaraðila, við komumst aldrei neitt mikið áfram í vinnunni sjálfri í nefndinni. Það var reynt töluvert hér í þinglokasamningum að ná samningum og ég veit að hæstv. ráðherra teygði sig langt í umræðunni við aðila þar. Ég var að vona núna að við gætum náð tiltölulega breiðri sátt um að afgreiða loksins frumvarp með breytingum á útlendingalögum. Nefndin fór í þeim tilgangi í heimsókn til Noregs og Danmerkur til að skoða kerfin þar, eins og margoft hefur verið rætt hér í kvöld og áður. Ég hef sagt að ég vilji horfa til Norðurlandanna. Ég nefni það gjarnan í mörgum málum að við erum hluti af Norðurlöndunum og ég aðhyllist velferðarmódelið í norrænu ríkjunum, eins og við höfum verið að reka hjá okkur, og þess vegna er full ástæða til þess í mjög mörgum málum að horfa til Norðurlandanna hvað velferðina varðar, en svo byggjum við líka auðvitað oft á sama lagagrunni og þar er. Það er samt þannig að lögin okkar, og í rauninni þetta frumvarp hér, ganga lengra í mörgum málum en á hinum Norðurlöndunum.

Ég hef talað fyrir því að það sé mjög mikilvægt að þeir sem fá hér alþjóðlega vernd hafi líka atvinnuréttindi og það er að finna í þessu frumvarpi, eins og komið hefur verið inn á. En ég vil ganga lengra í þeim efnum. Ég mun óska eftir því að hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra skoði möguleika á því að auðvelda fólki að fá hér atvinnuleyfi, og dvalarleyfi, þá í samstarfi við dómsmálaráðherra, einmitt til þess að við getum fjölgað fólki sem vill koma til Íslands og taka þátt í íslensku samfélagi. Ég held að við áttum okkur öll á því sem hér erum inni að fólk sem býr fyrir utan EES-svæðið á ofboðslega takmarkaða möguleika á að flytja til Íslands öðruvísi en að koma í gegnum verndarkerfið. Verndarkerfið er auðvitað ekki hugsað fyrir alla sem vilja koma til Íslands, alls ekki. Það er bara hugsað fyrir fólk sem er í brýnni neyð. Þess vegna hef ég verið talsmaður þess að við aukum skilvirknina og skerpum á málsmeðferð, skýrum þennan ramma, því að ég held að það sé ofboðslega mikilvægt að ramminn sé skýr, að það ferli sem umsækjendur fara í sé sanngjarnt, það sé vel að því staðið. En þegar niðurstaða er komin í það mál er líka mikilvægt, til að ramminn okkar haldi, að fólk víki þá úr landinu ef það fær ekki vernd. Við erum með þetta á tveimur stjórnsýslustigum; annars vegar veitir Útlendingastofnun annaðhvort heimild eða synjun og svo fer þetta til kærunefndarinnar. Það er líka ágætt að geta þess að til að mynda í þeim löndum sem við vorum að heimsækja, Noregi og Danmörku, er það bara á kærustiginu sem ríkið útvegar fólki löglærða fulltrúa til að aðstoða það við að bera fram kæruna. Hér veitum við öllum löglærða fulltrúa, talsmenn í gegnum allt ferlið.

Ég held að við séum að gera vel og ég held að það sé mjög mikilvægt að við gerum vel. Ég hef í mínum málflutningi um þessi mál líka talað um hvernig við tökum á móti þessu fólki. Ég myndi vilja sjá breytingar á því verklagi hvernig við semjum við sveitarfélögin um móttöku. Ég myndi vilja sjá móttökumiðstöð þar sem eru líka samþætt þjónustu- og búsetuúrræði. En það er auðvitað ekki fjallað um það í þessu frumvarpi vegna þess að þetta er frumvarp frá dómsmálaráðherra um breytingu á útlendingalögum. Hér erum við bara að fjalla um þennan ramma, hvort og hvernig á að veita fólki vernd. En ég tek alveg undir það að hin umræðan er líka mikilvæg, þ.e. hvernig við getum opnað enn frekar á dvalar- og atvinnuleyfismöguleika. Hvernig getum við tekið enn betur á móti því fólki sem hingað kemur og fær vernd? Hvernig getum við haft þjónustuna skilvirka? Og ég tala nú ekki um þegar kemur að börnunum. Hvernig getum við aðstoðað börnin í íslensku skólakerfi enn betur en við gerum í dag?

Ég efast ekki um að við munum á þessum vetri og mögulega á næstu misserum taka útlendingamál sem slík oft til umræðu. Ég held að það sé bara mikilvægt og samfélagið okkar er þannig. En ég held að það sé löngu tímabært að við gerum þær mikilvægu breytingar sem gera þarf á útlendingalögunum og liggja fyrir í þessu frumvarpi. Ég ætla að leyfa mér að vera áfram bjartsýn. Þrátt fyrir að ýmsar ræður hér í kvöld hafi kannski ekki verið alveg til þess fallnar að auka á bjartsýni mína þá ætla ég að leyfa mér samt sem áður að vera bjartsýn, að það sé einhver möguleiki að hv. allsherjar- og menntamálanefnd nái utan um þetta og við náum sem breiðastri pólitískri samstöðu um að gera þessar breytingar sem hér liggja fyrir. Það er auðvitað ekki til gamans gert að dómsmálaráðherra eftir dómsmálaráðherra kemur hér fram með breytingar á þessum lögum. Það er af góðri ástæðu. Það er af þeirri ástæðu að við höfum rekið okkur á það í kerfinu að það þarf að aðlaga. Það hefur staðið hér í greinargerðinni trekk í trekk og við vitum það sem höfum rætt við sérfræðinga sem vinna í þessum málaflokki að þeir benda á atriði sem hægt er að laga — og hér er það lagt til.

Ég ætlaði nú örugglega segja eitthvað meira en ég er orðin svo þreytt að ég man ekki hvað það var. Ég ætla bara að ítreka að ég ætla að vera bjartsýn á að við náum þessu. Ég held að þetta sé mikilvægt mál. — Jú, nú man ég alveg hvað ég ætlaði að segja. Ég ætlaði aðeins að fara yfir greinar sem ég hef heyrt hvað mesta gagnrýni gagnvart. Það er varðandi 30 dagana, eins og við höfum verið að tala um. Hér segir í 6. gr. frumvarpsins:

„Útlendingur sem fengið hefur endanlega synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd nýtur áfram réttinda samkvæmt þessari grein þar til hann hefur yfirgefið landið en þó að hámarki í 30 daga frá því að ákvörðunin varð endanleg á stjórnsýslustigi.“

Svo eru teknar fyrir ýmsar undanþágur. Ég held að það sé óþarfi að lesa þær upp en þær eru skýrar og þær eru víðtækar. Þetta á ekki við um börn eða forsvarsmenn barna, þetta ekki á við um fatlaða einstaklinga, fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Þetta á ekki við þegar aðstæður eru með þeim hætti að það er ekki hægt að vísa einstaklingi á brott og hann hefur sjálfur ekki komið í veg fyrir það. Þar af leiðandi á þetta ekki við um það þegar um er að ræða skort á ferðaskilríkjum, eins og kom hér fram áður. Einhverjir hv. þingmenn hafa velt fyrir sér hvort þessir fyrirvarar hér séu nægir. Ég er bara tilbúin að taka þá umræðu og fara yfir þær ábendingar sem kunna að koma. Ég átta mig alveg á því hvað fólk segir þarna og það er vísað í hvað Danirnir segja: Nei, við ætlum ekki að setja fólk undir brúna. Þá verðum við líka að átta okkur á því að í öðrum Evrópulöndum býr fólk í sérstöku úrræði þegar það hefur fengið synjun. Það er ekki til umræðu hér og eins og fram hefur komið í umræðunni hefur ekki náðst nein pólitísk sátt um að fara þá leið.

Ef við ætlum á annað borð að vera með ramma og erum sammála um að það eigi að vera einhver rammi og við erum sammála um að við ætlum að leggja mikið á okkur í málsmeðferðinni, við erum að veita þessu fólki löglærða fulltrúa sér til fulltingis í öllu ferlinu, held ég að við verðum líka að spyrja okkur þeirrar spurningar: Þegar niðurstöðu er náð hjá kærunefndinni er þá ekki eðlilegt að fólk fari til síns heima eða til þess lands þar sem veitt hefur verið vernd? Er hægt að ætlast til þess að íslenskir skattgreiðendur haldi áfram að greiða framfærslu með fólki sem ekki fær hér vernd? Kerfið á að vera fyrir þá sem eru í þeirri neyð og fá þar af leiðandi vernd samkvæmt kerfinu okkar.

Ég held að ég láti þessu lokið hér. Ég sá að það er nóg af fólki sem kemur í andsvör við mig þannig að þá höfum við tækifæri til að fara enn frekar yfir þessa þætti. Við höfum rætt aðeins hérna um tímafresti og sjálfvirku kærurnar sem er fullyrt hér í þessu frumvarpi að séu til að auka skilvirknina. Ég minnist þess að við áttum þetta samtal við formann kærunefndarinnar á síðasta þingi sem færði rök fyrir því að svo sé, enda er ljóst að langflestir kæra til kærunefndarinnar þegar þeir fá synjun. Ég sé það fyrir mér sem skilvirkni eins og mælt er fyrir hér, ég er þó tilbúin að hlusta á rök gegn því. En ég sé ekki betur en að það sé ýmislegt sem mælir því mót.

Ég ítreka það sem ég hef áður sagt: Hér er verið að skerpa á málsvarnarmeðferðinni. Það er verið auka skilvirknina, skýra þennan ramma, sem ég tel alveg ofboðslega mikilvægan, einmitt til þess að við getum forgangsraðað í þágu þeirra sem eru í mestri neyð.