153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[23:07]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir ræðuna sem var um margt alveg ágæt. En það sem hefur kannski aðeins farið fyrir brjóstið á mér, og þá er ég ekki að tala til hv. þingmanns heldur almennt í umræðunni þegar menn eru að rökstyðja þær breytingar sem liggja fyrir okkur núna, eru einhverjar tilvísanir og tengingar í óskylda hluti, til að mynda hvað það er óskaplega mikil ágjöf af fólki frá Venesúela og Úkraínu og svo erum við allt í einu með frumvarp sem er í sjálfu sér ekki að taka neitt sérstaklega á því. En ég hjó eftir því sem stundum hefur líka verið sagt, annars vegar að við eigum að líta til þess sem önnur ríki í Evrópu séu að gera, eins og þau séu öll að gera það sama, og hins vegar að við eigum að horfa til Norðurlandanna og þeirrar mannúðar sem þar er og skoða kerfið okkar með hliðsjón af því. Ég vil fá að vita hvað við erum nákvæmlega að tala um. Erum við að tala um Svía eins og þeir voru fyrir tveimur árum eða Svía eins og þeir verða núna eftir tvö ár eftir að harðkjarnaliðið hefur verið þar við völd? Erum við að tala um Dani sem eru mjög harðir eða Norðmenn sem eru tiltölulega sveigjanlegir? Það sem ég er kannski að reyna að kalla fram frá hv. þingmanni er: Væri ekki til bóta ef við hættum að tala eins og öll ríki Evrópu séu að gera þetta og eins og Norðurlöndin séu að gera þetta, eins og við Íslendingar séum rosalega mikið á skjön við alla aðra?