153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[23:11]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur andsvarið. Ég man nú ekki svo glöggt tölurnar, ég sé bara umsóknir per capita, á hvern íbúa, í greinargerðinni hérna og þær virðast vera nokkuð sambærilegar í Danmörku og Noregi. Hv. þingmaður fór inn á það í fyrra andsvari varðandi umræðuna að auðvitað eru langflestir að koma frá Úkraínu og ég held að íslenska þjóðin öll og við hérna inni séum sammála um að við viljum taka á móti þessu fólki og við viljum standa með Úkraínu alla leið. En þegar ég er að tala um þessa þætti þá held ég að sé mikilvægt að við horfum fram hjá því og á ástæðuna fyrir því að búið er að leggja málið fram fimm sinnum. Jafnvel þótt við tökum Úkraínufólkið frá þá erum við samt að taka á móti sögulega mörgum umsóknum. Það er alveg rétt að síðan koma langflestir frá Venesúela. Já, ég held að það að opna á atvinnuréttindi myndi létta á kerfinu en ég er kannski ekki síður að horfa til verndarmálanna. Þó að það sé ekki hátt hlutfall akkúrat núna af því að við erum með svo margt fólk frá Úkraínu (Forseti hringir.) þá hafa verið hér sögulegir toppar í því að fólk sem er með vernd í öðru landi komi til Íslands og miklu, miklu fleira en í hinum löndunum. (Forseti hringir.) Ég held til að mynda að það að auka möguleika fólks á að koma hingað og starfa og dvelja, auðvitað innan einhvers ramma, hafi fólk eitthvað fram að færa til íslensks atvinnulífs og íslensks samfélags, myndi mögulega létta á þeim þætti.