153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[23:13]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég er enn að reyna að átta mig á umfangi vandans sem er lýst í frumvarpinu, að það sé mikilvægt að stjórnvöld geti brugðist við, aðlagað verndarkerfið, að fólk fái skjóta og mannúðlega afgreiðslu og svo að tryggja að misnotkun á kerfinu sé í lágmarki. Nú var brugðist við 2017 vegna bersýnilega tilhæfulausra umsókna. Miðað við málflutning hv. þingmanns í ræðunni áðan þá bókstaflega átta ég mig ekki á hversu marga einstaklinga er verið að tala um að valdi þessum vanda. Hvaða hópur er það sem er vandamálið? Er hægt að benda bara beint á: Það er þessi hópur, það eru þetta margir, og þessar lagabreytingar munu taka á því að þessi hópur fari ekki svona í gegnum kerfið heldur fari hann svona í gegnum kerfið? Er hægt að útskýra það dálítið betur? Ég sé það ekki augljóslega í frumvarpinu fyrir hvern þetta breytir nokkru, (Forseti hringir.) nema að það verði áhætta hjá þeim hópi sem raunverulega þarf vernd, sem allir eru sammála um að eigi að fá vernd. Þeir gætu óvart (Forseti hringir.) dottið í einhverja glufu sem myndast í þessu frumvarpi og ekki fengið vernd af því að það er verið að gera allt svo skilvirkt (Forseti hringir.) og það er verið að sópa út og viðkomandi nær ekki verndinni af því að hann nær t.d. ekki að safna gögnum, eins og hefur komið fram hérna.

(Forseti (AIJ): Forseti minnir á ræðutímann.)