153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[23:15]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég deili ekki þessum áhyggjum hv. þingmanns. Ég er ekki endilega tilbúin að setja í svona flokka eða hópa og ég veit ekki hvort hv. þingmaður sé að spyrja mig um eitthvert fólk frá ákveðnum löndum frekar en eitthvað annað. Alveg eins og fram hefur komið mun þetta hafa þau jákvæðu áhrif á Úkraínufólkið okkar, ef við setjum þau í þann hóp, sem hefur fengið dvalarleyfi af mannúðarástæðum, að það fær líka atvinnuleyfi, sem ég held að ég og hv. þingmaður séum sammála um. Þetta er ekki til þess gert að draga úr réttindum fólks. Þetta er gert til að auka skilvirknina. Ég verð að viðurkenna að maður er búinn að læra alveg ofboðslega mikið af þessum málaflokki bara núna á síðasta ári eftir að við byrjuðum að takast á við þetta verkefni. Bæði hefur maður verið að tala við fólk sem vinnur hjá Útlendingastofnun, ráðuneytinu, stoðdeild ríkislögreglustjóra, lögfræðinga sem hafa komið að þessu máli, Rauða krossinn og annað. Það er alveg þannig að þó að langflest fólk sé auðvitað heiðarlegt þá eru líka aðilar sem eru að reyna að svindla á kerfinu. Mér finnst það skylda okkar sem þingmanna (Forseti hringir.) að fara vel með það. Ef það eru einhverjar glufur sem verið er að benda okkur á þá finnst mér alveg ástæða til að taka á því. Ég lít svo á að þetta frumvarp sé til þess gert (Forseti hringir.) fyrst og fremst að auka skilvirknina og bæta einmitt stöðu þeirra sem hér eiga rétt á vernd.