153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[23:18]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er ekki alveg sammála þessari rökræðu hv. þingmanns en ég þakka andsvarið engu að síður. Hingað til höfum við einmitt rætt um að það sé mjög mikilvægt að það sé skilvirkni og að umsóknir fólks séu afgreiddar hratt og vel því að það sé hluti af mannréttindum að fólki sé ekki haldið hér í óvissu í langan tíma. Það hefur verið kappsmál.

Af því að hv. þingmaður kom inn á sjálfkrafa kærurnar er ég tilbúin að taka þá umræðu í nefndinni ef fólk er með skoðanir á þessu. Ég vil þó benda á að hér á landi hefði maður haldið að fólk ætti jafnvel að vera betur undir það búið vegna þess að allir umsækjendur eru líka með löglærðan fulltrúa á fyrsta stiginu. Ég bara bendi á að það er umfram það sem hin Norðurlöndin eru að gera. Allir umsækjendur um alþjóðlega vernd fá aðgang að löglærðum fulltrúa sem er þeirra talsmaður og fylgir þeim í gegnum ferlið. Maður myndi því ætla að það ætti ekki að taka svo langan tíma að undirbúa til kærunefndarinnar því að þetta ættu jú að vera sömu gögn og lögð eru fyrir Útlendingastofnun sjálfa.

Að sjálfsögðu getum við farið yfir það hvort 15 dagarnir (Forseti hringir.) eru réttir eða hvort ætti að gera það með einhverjum öðrum hætti. En ég bendi á að það er ástæða fyrir því að verið er að leggja þetta til og það er vegna þess að fólk (Forseti hringir.) sem vinnur í þessu kerfi hefur verð að benda á að þetta gæti verið lausn til að auka skilvirkni en ekki að (Forseti hringir.) draga úr réttindum fólks.