153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[23:23]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og ég sagði hér í ræðu áðan þá hygg ég að við munum áfram þurfa að ræða málefni er snerta útlendinga; þjónustuna, atvinnuleyfin, börn í skóla og ýmislegt. Ég held að það verði stórt verkefni á næstunni að takast á við það en ég vona innilega að við getum afgreitt það frumvarp sem hér liggur fyrir. Ég samþykkti og styð þetta frumvarp sem hér er lagt fram af hæstv. dómsmálaráðherra. Það þýðir auðvitað að ég styðji það í þinglega meðferð og er opin fyrir umræðum og athugasemdum sem kunna að koma fram í nefndinni. Ég mun enn þá segja þá skoðun mína að mér fyndist skynsamlegt að við værum sem næst hinum Norðurlöndunum í þessum ákvæðum sem hér um ræðir. Það breytir því ekki að ég held að það sé mjög mikilvægt að við náum einhvers konar sátt um þetta mál og myndi gjarnan vilja að hún væri enn breiðari en bara meðal stjórnarflokkanna. Því býð ég hv. þingmann velkominn í sátta- og samráðsliðið. Ég get ekki svarað nákvæmlega fyrir það sem var gert árið 2017 í yfirlýsingunni. Ég legg áherslu á að þetta frumvarp hefur ítrekað verið lagt fram, farið í gegnum samráðsgátt, fengið umsagnir og hefur tekið breytingum. (Forseti hringir.) Ef skoðaðar eru umsagnir frá síðasta þingi er til að mynda vísað í að margar góðar breytingar hafi átt sér stað þótt að við höfum ekki enn náð því að allir séu sammála. (Forseti hringir.) Það mun væntanlega seint verða en ég vona svo innilega að við séum að færast nær því.