Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 23. fundur,  26. okt. 2022.

iÍL-sjóður.

357. mál
[17:43]
Horfa

Ágúst Bjarni Garðarsson (F):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir þessa mikilvægu umræðu og þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir skýrsluna og framsögu hans í þessu máli. Við ræðu hér fjárhagsstöðu ÍL-sjóðs sem stofnaður var um fjárhagslegar skuldbindingar gamla Íbúðalánasjóðs þegar hann var lagður niður eða sameinaður HMS, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Ég held að það sé mikilvægt í allri þessari umræðu að átta okkur á því að við erum með ákveðna stöðu sem þarf að ræða á þessum vettvangi og í þessum þingsal. Ég held að það sé hættulegt í þessari umræðu, eða henni a.m.k. ekki til framdráttar, að einblína sérstaklega í baksýnisspegilinn. Heldur ætti að reyna að finna leiðir til þess að komast áfram með málið, finna bestu mögulegu niðurstöðuna fyrir almenning í landinu. Samhliða því þarf auðvitað líka að læra af fortíðinni og mögulega þeim mistökum sem voru gerð á þessari vegferð.

Staðreyndin er sú, eins og fram hefur komið í umræðum hér í dag um þetta mál, að við erum að horfa aftur til ársins 2004 og til ákvarðana sem voru teknar á þeim tíma eftir lögum sem þá voru í gildi. Hæstv. ráðherra hefur m.a. sagt í viðtölum að menn á þessum tíma hafi verið að leita að lægstu vöxtum. Það hafi verið eins og aðilar hafi ekki gert sér grein fyrir hvaða áhætta var þar í spilinu, að fólk hafi hreinlega ekki trúað því að vaxtastig gæti orðið lægra. Ég skil fullvel hvert hæstv. ráðherra er að fara með þessum orðum en það má auðvitað um leið velta fyrir sér um hvaða aðila er verið að ræða.

Hér má auðvitað velta fyrir sér þáverandi stjórnendum Íbúðalánasjóðs. Ég tel rétt og mikilvægt að halda því til haga, og held að það standist alla skoðun, að þáverandi stjórnendur Íbúðalánasjóðs hafi farið í einu og öllu eftir þeim lögum sem sett voru á Alþingi af alþingismönnum þess tíma. Til að gæta sanngirni þá er ekki alls kostar rétt þegar því er slegið upp í fyrirsögnum fjölmiðla að sparifjáreigendur muni taka höggið af afglöpum þáverandi stjórnenda Íbúðalánasjóðs. Aðrir bera einnig ábyrgð og í því samhengi er rétt að benda þingheimi á að lesa, og ég veit að margir þingmenn hér inni hafa gert það, skýrslu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, dagsett 18. mars 2014, undir forystu Ögmundar Jónassonar, vegna úttektar á starfsemi Íbúðalánasjóðs í kjölfar hrunsins. Þar kemur skýrt fram að stjórnendur sjóðsins á þeim tíma hafi farið í einu og öllu að lögum um starfsemi sjóðsins og virt þær starfsreglur sem þeim voru settar.

Ég dreg þetta sérstaklega fram vegna þess að mér finnst mikilvægt að þessi atriði komi fram í dagsljósið. Það er ágætlega rakið í skýrslunni hvernig lántakendur gátu greitt upp sín lán, öfugt við það sem sjóðurinn gat gert. Til ítrekunar, þá held ég og tel að þarna hafi einfaldlega verið farið eftir lögum og reglum sem löggjafinn setti og eitthvað hefði sjálfsagt verið sagt ef stjórnendur þess tíma hefðu neitað að framfylgja þeim ákvörðunum sem þegar voru teknar. Það fyrirkomulag að Íbúðalánasjóður gæti ekki greitt upp lántökur sínar leiddi auðvitað til þess að sjóðurinn fékk góð kjör og gat lánað á lægri vöxtum en áður þekktist og hann var á þessum tíma langsamlega stærsti lánveitandi til húsnæðisbygginga og kaupa. Ég tel að ef litið er til baka þá hafi þessi vaxtalækkun, á þessum tíma, vissulega verið í þágu lántakenda og húsnæðismarkaðarins í heild. Ég tel brýnt að við séum sanngjörn í söguskoðun þegar við lítum til baka. Bankaumhverfið á Íslandi hafði tekið verulegum breytingum frá því sem áður var og ég hugsa að ómögulegt hafi verið að sjá fyrir þá atburðarás sem gerðist næst. Þrátt fyrir að mikið og ítarlega hafi verið rætt um hrunið sem slíkt þá finnst mér skorta inn í þá umræðu, í tengslum við þetta mál, samhengi milli þeirra breytinga sem urðu á umhverfi banka hérlendis á þessum tíma og þau áhrif sem það hafði á starfsemi og í raun hugmyndafræði Íbúðalánasjóðs.

Virðulegur forseti. Þegar bankarnir hófu að lána sínum viðskiptavinum fé á niðurgreiddum vöxtum út á húsnæði, bæði til að endurfjármagna sín húsnæðislán og til að fjármagna ýmiss konar aðra neyslu og eyðslu, þá gátu menn veðsett hús sín eða íbúðir um allt að 100% án þess að nokkur viðskipti eða eignabreytingar væru til staðar. Vextir þessara lána voru niðurgreiddir því útlánsvextir voru lægri en þeir vextir sem bankarnir þurftu til að greiða af fjármögnun lánanna. Þessi nýju handstýrðu vaxtakjör bankanna voru nokkru lægri en vextir Íbúðalánasjóðs. Þarna hófst nýr kafli í sögu þjóðarinnar með uppgreiðslu lána hjá Íbúðalánasjóði, eitthvað sem Íbúðalánasjóður gat ekki gert með sín lán eins og ég hef áður sagt. Fólk færði sig yfir til bankanna vegna betri kjara og því situr Íbúðalánasjóður uppi með neikvæðan vaxtamun sem heldur áfram að tikka. Þetta er vandinn sem við hér inni og við öll stöndum frammi fyrir í dag. Þetta er vegferð sem bankarnir stýrðu. KB-banki reið á vaðið og í kjölfarið fylgdu aðrir bankar með þótt þeir vissu að eigin sök að það væri glapræði, en gerðu það samt til að halda viðskiptavinum hjá sér. Með öðrum orðum, þeir töldu sig þurfa að taka þátt og bjóða enn þá betur. Að sjálfsögðu skapaðist með þessum aðgerðum bankanna stór vandi hjá Íbúðalánasjóði sem hafði veruleg áhrif á starfsemi hans og getu til að standa undir hlutverki sínu eins og áður hefur verið nefnt í dag og ég hef nefnt hér áður. Við þekkjum hvernig þessi saga endaði. Bankarnir höfðu ekki úthald í þessum leik, voru tilneyddir eftir 2–3 ár að draga úr þessari óábyrgu lánastarfsemi, bankakerfið hrundi með þeim afleiðingum að einstaklingar, fyrirtæki og þjóðfélagið allt, þar með talið lífeyrissjóðirnir, töpuðu fjármunum sem námu þúsundum milljarða. Í þessu samhengi mætti kannski segja að tap Íbúðalánasjóðs, þó að það hljómi skringilega, sé ekki mikið þótt það sé umtalsvert. Velta má því fyrir sér hvort þetta áhlaup bankanna á Íbúðalánasjóð hafi verið upphafið að því sem síðar kom. Alla vega stóð enginn, ég fullyrði það, enginn, sterkari á eftir. Í mínum huga er það svo að 90% lán til ungs fólk fyrir fyrstu kaupum hafi hjálpað mörgum til þess að komast inn á húsnæðismarkaðinn og ég tel að þetta hafi verið góðar aðgerðir. Íbúðalánasjóður starfaði eftir reglum um 90% hámarkslán en svo komu bankarnir inn á markaðinn, eins og fyrr segir, í samkeppni við sjóðinn með engar reglur og engar takmarkanir á fjárhæðir. Í mínum huga var ekki hægt að gera ráð fyrir þessu. Þetta hafði aldrei þekkst áður í íslensku bankakerfi, eða kannski fjármálakerfi. Og hvað gerðist? Jú, auðvitað flutti hinn almenni borgari sig yfir til bankanna á þessum tíma. Afleiðingarnar af því eru hér til umræðu í dag, 18 árum síðar. Ég tel að við getum lært margt af sögu bankanna og það höfum við svo sannarlega gert, en það er ekki sanngjarnt að skella skuldinni á þá sem hér standa í dag og hafa fengið það verkefni í hendurnar að leysa úr þessum vanda.

Virðulegur forseti. Auðvitað þurfum við að læra af fortíðinni en mikilvægasta málið nú er að leita lausna í þeim verkefnum sem við stöndum frammi fyrir í dag og vanda til verka. Það er verið að gera hér. Verið er að setja þetta mál á dagskrá þingsins til umræðu og skoðanaskipta. Ég held að það sé ekki auðvelt né skemmtilegt verkefni sem hæstv. fjármálaráðherra ber á borð fyrir okkur. Staðreyndin er hins vegar sú að við getum ekki horft fram hjá því og okkur ber skylda til að koma í veg fyrir frekari skuldasöfnun ríkisins. Þetta er fyrsta skrefið, að taka málið inn eins og hæstv. fjármálaráðherra hefur gert, og ræða það. Það er og hlýtur ávallt að vera aðalmarkmið stjórnvalda að lágmarka kostnað ríkissjóðs. Hér ræðum við um áhættu og kostnað vegna uppsafnaðs vanda, fjárhagsvanda Íbúðalánasjóðs og einfaldrar ríkisábyrgðar á skuldum. Í skýrslunni kemur fram að fjárhagslegur halli sjóðsins sé um 47 milljarðar kr. ef hann yrði gerður upp í dag. Fyrirséð er að sá halli muni aukast og hann gæti numið allt að 200 milljörðum á núvirði eftir 20 ár. Það er margt sem hægt er að gera fyrir þessar fjárhæðir. Við þurfum fyrst að leita leiða og lausna því að það liggja gríðarlegir hagsmunir undir, bæði fyrir almenning í dag og komandi kynslóðir. Ef ekkert verður að gert er nokkuð víst að óvissa og skuldaaukning muni á endanum koma niður á ríkissjóði öfugt við það sem margir halda fram. Í þessu samhengi erum við að hugsa um skattgreiðendur, eins og fyrr segir, börnin okkar og komandi kynslóðir sem þurfa þá að taka á þessum vanda sem við hér stöndum frammi fyrir sem ég held að sé ekki skynsamlegt. Ég held að þingheimur allur þurfi að taka höndum saman í þessu verkefni og reyna að leysa það en ekki snúa því upp í verkefni í fortíðarpólitík.